Því er slegið upp í norskum fjölmiðlum að strandveiðibáturinn Kystfisk Jr. hafi nýlega fengið metafla á dragnótaveiðum, um 40 tonn af vertíðarþorski í einu holi.
Kystfisk Jr., sem er 127 brúttótonna bátur, er frá Øksnes. Fjórir eru í áhöfn. Á vefnum www.vol.no er rætt við skipstjóra bátsins. Hann segist hafa verið til sjós í 30 ár en aldrei kynnst annarri eins mokveiði og nú. Menn hafi ekki trúað sínum eigin augum þegar þeir fóru að hífa og sáu hvað var í nótinni. Hér er ekki aðeins um óvenjumikinn afla að ræða heldur er fiskurinn óvenjustór miðað við árstíma. Meðalvigtin er um 4 kíló.
Á þremur dögum fiskuðu þeir á Kystfisk Jr. fyrir eina milljón (tæpar 19 milljónir ISK) og aflaverðmæti bátsins í febrúar er 3,5 milljónir (66 milljónir ISK).