Met verður sett í veltu tæknifyrirtækisins Vélfags á þessu ári og mikill vöxtur er í allri starfseminni. Reynir B. Eiríksson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að þetta verði stærsta árið í sögu þess og verkefnastaðan sé afar góð. Vöxtur hafi verið á öllum sviðum miðað við síðasta ár og fyrri ár og nær hann til allra vöruflokkanna, þ.e. hausara, flökunarvéla og roðflettivéla. Þá verði fyrsta UNO vélin afhent í upphafi næsta árs, vél sem Reynir segir að verði leikbreytir innan fiskvinnslunnar.
Fiskvinnsluvélar í nýjan togara DFFU
Vöxturinn er jafnt í innanlandssölu og sölu til útlanda. Nýverið voru settar upp í Baldvin Njálsson GK, þegar hann var í slipp á Akureyri, flökunarvél, roðflettivél og hausari frá Vélfagi. Þar með er búnaður af þessu tagi frá Vélfagi kominn í 80% togaraflotans á Íslandi sem er í vinnslu úti á sjó.
DFFU, dótturfyrirtæki Samherja, er að láta smíða fyrir sig nýjan vinnslutogara í Noregi sem heitir Berlin og verður afhentur í byrjun næsta ár. Í hann eru komnar roðflettivélar, hausarar og flökunarvélar. Einnig hafa verið góðar sölur til Írlands og fleiri landa.
„Það er vöxtur á flestum stöðum. Starfsmönnum hjá okkur hefur fjölgað um 40% á þessu ári. Framleiðslan er öll á Akureyri og Ólafsfirði og þar fer líka fram samsetning. Og nú erum við farin að horfa í kringum okkur eftir stærra húsnæði því við erum orðin verulega aðþrengd hérna á Baldursnesi. Einnig höfum við bæði opnað söluskrifstofu í Kópavogi og þjónustuhúsnæði í Hafnarfirði á þessu ári,“ segir Reynir.
Leikbreytirinn
Hann segir spennandi tíma framundan og verkefnastaðan sé sérlega góð fram eftir næsta ári. Fyrstu UNO vélarnar verði afhentar núna upp úr næstu áramótum. Tvær þeirra fara til norsku útgerðarinnar Bluewild og verða settar upp í nýsköpunartogaranum Ecofive. Reynir segir mikinn áhuga um þessar mundir á UNO vélinni en góður gangur sé einnig í sölu á öðrum vörum fyrirtækisins. Þriðja UNO vélin verður svo afhent Atlas Premium Seafood í Lettlandi sem er í eigu Sighvats Bjarnasonar.
UNO er í raun fimm vélar í einni og var tækið frumsýnt á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll síðla sumars 2022. Tækið beinhreinsar fisk, hausar, roðflettir, flakar og er með innbyggt gæðaeftirlit. „UNO vélin býður upp á algjörlega nýja leið til þess að skera bein úr fiski og hún er búin fleiri kostum sem gera hana að leikbreyti. Í farvatninu eru fleiri samningar um sölu á UNO vélinni,“ segir Reynir.
Met verður sett í veltu tæknifyrirtækisins Vélfags á þessu ári og mikill vöxtur er í allri starfseminni. Reynir B. Eiríksson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að þetta verði stærsta árið í sögu þess og verkefnastaðan sé afar góð. Vöxtur hafi verið á öllum sviðum miðað við síðasta ár og fyrri ár og nær hann til allra vöruflokkanna, þ.e. hausara, flökunarvéla og roðflettivéla. Þá verði fyrsta UNO vélin afhent í upphafi næsta árs, vél sem Reynir segir að verði leikbreytir innan fiskvinnslunnar.
Fiskvinnsluvélar í nýjan togara DFFU
Vöxturinn er jafnt í innanlandssölu og sölu til útlanda. Nýverið voru settar upp í Baldvin Njálsson GK, þegar hann var í slipp á Akureyri, flökunarvél, roðflettivél og hausari frá Vélfagi. Þar með er búnaður af þessu tagi frá Vélfagi kominn í 80% togaraflotans á Íslandi sem er í vinnslu úti á sjó.
DFFU, dótturfyrirtæki Samherja, er að láta smíða fyrir sig nýjan vinnslutogara í Noregi sem heitir Berlin og verður afhentur í byrjun næsta ár. Í hann eru komnar roðflettivélar, hausarar og flökunarvélar. Einnig hafa verið góðar sölur til Írlands og fleiri landa.
„Það er vöxtur á flestum stöðum. Starfsmönnum hjá okkur hefur fjölgað um 40% á þessu ári. Framleiðslan er öll á Akureyri og Ólafsfirði og þar fer líka fram samsetning. Og nú erum við farin að horfa í kringum okkur eftir stærra húsnæði því við erum orðin verulega aðþrengd hérna á Baldursnesi. Einnig höfum við bæði opnað söluskrifstofu í Kópavogi og þjónustuhúsnæði í Hafnarfirði á þessu ári,“ segir Reynir.
Leikbreytirinn
Hann segir spennandi tíma framundan og verkefnastaðan sé sérlega góð fram eftir næsta ári. Fyrstu UNO vélarnar verði afhentar núna upp úr næstu áramótum. Tvær þeirra fara til norsku útgerðarinnar Bluewild og verða settar upp í nýsköpunartogaranum Ecofive. Reynir segir mikinn áhuga um þessar mundir á UNO vélinni en góður gangur sé einnig í sölu á öðrum vörum fyrirtækisins. Þriðja UNO vélin verður svo afhent Atlas Premium Seafood í Lettlandi sem er í eigu Sighvats Bjarnasonar.
UNO er í raun fimm vélar í einni og var tækið frumsýnt á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll síðla sumars 2022. Tækið beinhreinsar fisk, hausar, roðflettir, flakar og er með innbyggt gæðaeftirlit. „UNO vélin býður upp á algjörlega nýja leið til þess að skera bein úr fiski og hún er búin fleiri kostum sem gera hana að leikbreyti. Í farvatninu eru fleiri samningar um sölu á UNO vélinni,“ segir Reynir.