Megnið af þeim afla sem kom á land á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 var seldur í beinni sölu. Sjófrystingin kemur þar á eftir. Mestur samdráttur varð í verðmæti þess afla sem fluttur var út óunninn miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í yfirliti frá Hagstofunni um aflaverðmæti á fyrri helmingi ársins.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 41 milljarði króna og dróst saman um 1% miðað við fyrstu sex mánuði ársins 2012.

Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands dróst saman um 8,8% milli ára og nam rúmum 11,1 milljarði króna.

Aflaverðmæti sjófrystingar nam tæpum 21,8 milljörðum í janúar til júní og dróst saman um 8,7% milli ára.

Verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam rúmlega 2,3 milljörðum króna, sem er 25,6% samdráttur frá árinu 2012.