„Neytandinn er ekki að spá í ofurkælingu eða dauðastirnun,“ sagði Shiran Þórisson, fjármálastjóri hjá ArcticFish, á ráðstefunni um Strandbúnað.
„Neytandinn hugsar bara í dögum og það þarf að mennta hann ofboðslega vel um að það sé hægt að vera með lengri hillutíma á þessum fersku vörum ef við ætlum að keppa í þeim geira,“ sagði Shiran í erindi sínu á málstofu þar sem fjallað var um ýmsar áskoranir við að koma vörunni á markað.
Hann vísaði þarna til þess að Albert Högnason frá Skaganum 3X og Sigurjón Arason frá Matís höfðu á sömu málstefnu fjallað um nýjustu tækni við að halda fiski ferskum sem lengst og gæðunum jafnframt sem mestum.
„Við erum að vinna fiskinn okkar á Bíldudal og það er hægt að vera með flutningatíma sem er í kringum 7 til 8 dagar, en það hefur alveg farið upp í 12 daga að flytja fiskinn á áfangastað. Þarna erum við að keppa við töluvert styttri tíma frá Norður-Noregi.“
Shiran bar síðan saman kostnaðinn við að flytja fisk frá Bíldudal á Vestfjörðum annars vegar og Norður-Noregi hins vegar til verksmiðju í Póllandi, sem tekur við ferskum laxi frá ArcticFish. Frá Bíldudal til Póllands er raunkostnaðurinn á bilinu 0,35 til 0,47 evrur á hvert kíló, en frá Norður-Noregi til sömu verksmiðju í Póllandi kostar flutningurinn um 0,2 til 0,25 evrur kílóið.