Allt frá því að togararallið hófst árið 1985 og til ársins 1999 fékkst alltaf mun meira af ýsu við sunnanvert landið en fyrir norðan. Á því hefur orðið breyting í kjölfar aukinna hlýinda í sjónum á undanförnum árum. Í nýafstöðnu togararalli veiddist ýsa á landgrunninu allt í kringum land en meira fékkst nú af ýsu fyrir norðan land en sunnan.
Stofnvísitala ýsu hækkaði verulega á árunum 2001-2005, en fór ört lækkandi næstu fimm árin þar á eftir. Vísitalan nú er svipuð og mældist í vorralli árin 2010-2011, samkvæmt niðurstöðum togararallsins.
Lengdardreifing ýsunnar sýnir að allir lengdarflokkar eru undir meðallagi í fjölda. Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að allir ýsuárgangar eftir 2007 séu lélegir, en mest fékkst af 35-50 cm ýsu sem flestar eru fjögurra ára.
Holdafar ýsu og lifrarstuðull voru í meðallagi bæði fyrir sunnan og norðan land. Loðna var rúmlega helmingur af fæðu ýsunnar.