Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi og hafði þá lokið togararallinu þetta árið. Bjartur togaði á alls 184 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Hornafirði að Eyjafirði. Bjarni Hafsteinsson stýrimaður sagði að rallið hefði gengið vel en þó hefði það tekið lengri tíma en áætlað var vegna óhagstæðs veðurs.
Á vef Síldarvinnslunnar segir að meiri afli muni hafa fengist í þessu ralli en ralli undanfarinna ára en Hafrannsóknastofnun nýtir togararallið til að leggja mat á stofnstærð botnfiska við landið.
Eins og fram hefur komið fékk fékk Bjartur tundurdufl í vörpuna í síðustu viku þar sem hann var að toga í Rósagarðinum suðaustur af landinu. Duflinu var eytt í gærkvöldi.