Meira hefur fundist af síldarseiðum í Baretnshafi en mörg undanfarin ár. Þetta kemur fram á vef norska síldarsamlagsins þar sem sagt er frá rannsóknaleiðangri sem nú er að ljúka. Áður hafði í þessum sama leiðangri fundist mikið af makrílseiðum.
Í leiðangrinum varð vart við þéttar torfur af síldarseiðum um miðbik Barentshafsins. Seiðin fundust svo langt sem norður að 80. breiddargráðu sem vekur furðu manna. Þetta þýðir að 2013 árgangurinn muni að öllum líkindum koma sterkur inn sem nýliðun í hrygingarstofn norsk-íslensku síldarinnar árin 2017 og 2018.
Lengdin á seiðunum er yfir meðallagi þannig að þau hafa haft nóg að „bíta og brenna“. Nánar má lesa um málið á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.