Landhelgisgæslan vísaði í fyrrinótt íslensku skipi til hafnar fyrir meintar ólöglegar síldveiðar í lögsögu Grænlands, að því er fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar.
Íslensk skip hafa ekki heimild íslenskra stjórnvalda til síldveiða innan grænlenskrar lögsögu og var Landhelgisgæslan því í samskiptum við yfirvöld á Grænlandi vegna málsins. Tvö skip eru grunuð um að hafa stundað ólöglegar síldveiðar á svæðinu en bæði skipin höfðu hinsvegar leyfi til makrílveiða á svæðinu.
Þegar málið kom til rannsóknar var annað skipið á leið til hafnar á Íslandi. Áhöfn varðskipsins Þórs fór til eftirlits um borð í skipið í fyrrinótt og var skipstjóra í framhaldinu tilkynnt að hann hefði verið staðinn að meintum ólöglegum veiðum og var skipinu vísað til hafnar. Málið er til meðferðar hjá lögreglu.