Plastflekkurinn í Kyrrahafinu hefur vakið athygli heimsins undanfarið og ýtt undir kröfur um að dregið verði verulega úr plastnotkun.
Ný rannsókn sýnir að flekkurinn er mörgum sinnum stærri en áður var talið, alls líklega um 79 þúsund tonn. Megnið af plastinu er þó ekki plastflöskur eða neytendaumbúðir, heldur er hann að stærstum hluta samsettur úr veiðarfærum.
Rannsóknin leiddi í ljós að um 46 prósent eru net og megnið af afgangnum eru önnur veiðarfæri, svo sem reipi, körfur og gildrur af ýmsu tagi.
Þeir komust einnig að því að níutíu prósent af plasteiningunum í flekknum er örplast, en samtals vegur örplastið þó ekki nema átta prósent af heildarmagninu.
Þá er talið að um það bil 20 prósent af plastinu hafi skolað á haf út þegar flóbylgjan mikla skall á Japan árið 2011. Vitað er að um 4,5 milljón tonn af ýmis konar braki skolaði þá á haf og reikna má með að um 70 prósent af því hafi sokkið fljótlega til botns, en annað sé enn á floti í hafinu, ekki síst plastið.
Það voru hollenskir vísindamenn, með Laurent Lebreton í forystu, sem tóku sýnishorn úr flekknum og greindu innihaldið. Þeir birtu niðurstöður sínar í síðasta mánuði í Scientific Reports á vef vísindatímaritsins Nature. Um niðurstöðurnar hefur einnig verið fjallað á vef National Geographic.
Hreinsun að hefjast
Lebreton segir í viðtali við National Geographic að það hafi komið verulega á óvart hve stór hluti flekksins væri leifar af veiðarfærum: „Upphaflega héldum við að veiðarfærin væru nálægt 20 prósentum. Það er alþjóðlega talan sem gengið er útfrá, að 20 prósent komi frá fiskveiðum og 80 prósent af landi.“
Rannsóknin er liður í undirbúningi hreinsunarstarfs sem á að hefjast á þessu ári eftir fimm ára undirbúningsvinnu undir merkjum Ocean Cleanup. Það var hollenskur piltur að nafni Boyan Slat sem setti það starf á laggirnar árið 2013, þá átján ára gamall en hann er nú orðinn 23 ára.
Hjá Ocean Cleanup starfa meira en sjötíu manns, verkfræðingar, vísindamenn og reiknimeistarar. Þeir vonast til að geta náð helmingnum af flekknum úr hafinu á fimm árum. Árið 2020 er auk þess stefnt að því að byrja sams konar aðgerðir á öðrum stöðum í heimshöfunum.
Plastflekkurinn í norðanverðu Kyrrahafinu er sá stærsti af samtals fimm stórum flekkjum af plast sem safnast hafa saman í heimshöfunum. Annar minni er í sunnanverðu Kyrrahafi. Tveir eru í Atlantshafi og einn á Indlandshafi.