Samgönguráðuneytið vill að lögum verði breytt þannig að viðaukar og aðrir gerningar í tengslum við alþjóðasamninga sem Ísland hefur undirritað á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, verði birtir á vef Samgöngustofu óþýddir.
Þetta stangast á við núverandi lög sem krefjast þess að allir textar alþjóðlegra samninga verði birtir í íslenskri þýðingu í Lögbirtingarblaðinu.
Textamagnið er í þessu tilviki hins vegar svo umfangsmikið að íslenska stjórnkerfið hefur ekki ráðið við þetta verkefni og því hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnt frumvarp um breytingu á lögum til að losna við þessa lagakvöð.
Alls hefur Ísland gengist undir 33 alþjóðasamninga á vettvangi IMO og samanlagður texti þeirra ásamt viðaukum og svonefndum kóðum sé að minnsta kosti 6.400 blaðsíður. Eða þetta var textamagnið fyrir nokkrum árum þegar Siglingamálastofnun Íslands, nú Samgöngustofa, lagði mat á heildarmagnið.
Textarnir breytast hratt
Í viðaukum og öðrum gerningum tengdum samningunum er að finna tæknilegar útfærslur á ýmsum efnisatriðum samninganna, og þeim þarf mörgum hverjum að breyta nokkuð ört.
„Í ljósi þess að seinvirkt og kostnaðarsamt yrði að þýða alla þessa gerninga er lagt til að Samgöngustofu verði heimilað að birta erlendan frumtexta þeirra á heimasíðu sinni,“ segir í greinargerð með frumvarpi samgönguráðherra. „Verður að telja það heimilt í ljósi þess að þessir alþjóðasamningar varða afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar. Auk þess varða flestir þessara samninga kaupskip, sem eru mjög fá hérlendis, auk þess sem töluverður hluti ákvæða þeirra fjallar um kröfur til smíði og búnaðar slíkra skipa.“
Fái einnig heimild til að sekta
Jafnframt hefur samgönguráðherra kynnt frumvarp þess efnis að Samgöngustofa fái heimild til þess að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila sem brjóta gegn ákvæðum laga um eftirlit með skipum.
„Málsmeðferð er almennt kostnaðarminni þegar stjórnvöld leggja á stjórnsýsluviðurlög heldur en þegar dómstólar dæma menn eða lögaðila til refsingar,“ segir í greinargerð með þessu frumvarpi. „Kostnaður hins brotlega t.d. vegna aðstoðar lögmanna er oftast einnig minni þegar um stjórnsýsluviðurlög er að ræða. Þá tekur almennt mun skemmri tíma að rannsaka og koma fram stjórnsýsluviðurlögum en refsingu.“