Meðalverð á óslægðum þorski fór niður fyrir 150 krónur á kíló á fiskmörkuðum landsins síðastliðinn laugardag. Engin dæmi eru um að þorskur hafi selst á svo lágu meðalverði síðustu þrjú árin. Meðalverð á þorski hefur lækkað um 18% frá ármótum miðað við sama tíma í fyrra.

Frá áramótum hefur þorksverðið farið lækkandi. Meðalverð á óslægðum þorski á mörkuðum frá 1. janúar til 9. apríl er 260 krónur á kíló en var 318 krónur á sama tíma árið 2012. Lækkunin nemur um 18%.

Á uppboðinu 27. mars lækkaði verðið hins vegar niður í 190 krónur. Það er í fyrsta sinn sem verðið fór niður fyrir 200 krónur frá því í apríl 2010.

Laugardaginn 6. apríl hrapaði meðalverðið í 148 krónur á kíló. Ýmsir samverkandi þættir, fyrir utan almenna verðlagsþróun, réðu því að verðið lækkaði þetta mikið. Í þessari viku hækkaði verðið aftur í 200 til 240 krónur á kíló.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.