Eftir margra vikna leit og litla veiði hófst makrílvertíðin fyrir alvöru í síðustu viku hjá stærri skipunum í Noregi. Þau veiddu tæp 24 þúsund tonn í vikunni.
Veiðin fór fram í lögsögu ESB en einnig í norsku lögsögunni. Markmiðið er að ná sem stærstum makríl. Í lögsögu ESB var makríllinn í kringum 420 grömm að meðaltali. Í norsku lögsögunni var hann mjög breytilegur að stærð. Minnsti makríllinn var um 294 grömm syðst á veiðisvæðinu en nyrst var fiskurinn 369 grömm.
Verð hefur sveiflast í takt við stærð makrílsins og hve dagsveiðin hefur verið mikil. Hæsta meðalverðið á uppboði í vikunni var 11,22 krónur norskar (228 ISK) en lægsta verðið var 6,98 krónur (142 ISK). Meðalverðið í síðustu viku var 8,99 krónur (182 ISK), að því er fram kemur á vef norska síldarsölusamlagsins.