Matvælastofnun hefur birt niðurstöður úr hitastigsmælingum á lönduðum afla frá tímabilinu maí til ágúst 2017. Alls voru 140 mælingar teknar víðs vegar um landið, en um 90% bátanna voru á strandveiðum og tæp 88% mælinga voru af strandveiðibátum.

„Meðalhitastig afla var 2,8 °C, þar af voru 40% hitastigsmælinga lægri eða jafnt og 2 °C, sem er viðmið fyrir hitastig bráðnandi íss,“ segir í tilkynningunni. „Við samanburð á hitastigi í afla má sjá að frá júní og út júlí hækkar meðalhiti afla sem kældur er með ís sem gæti útskýrst á hækkuðum sjávarhita en meðalhiti afla sem kældur er með krapa lækkaði hins vegar á sama tímabili.“

Meðalhiti þess afla sem kældur var með krapa var 2,1 ° gráða og meðalhiti afla sem kældur var með ís var 3,6 ° gráður, en hæsti meðalhitinn mældist hjá bátum sem lönduðu í Þorlákshöfn (5,6°C) og á Siglufirði (4,2°C).

Þar sem hitastig mældist hátt var algeng athugasemd eftirlitsmanna: „Enginn ís sjáanlegur um borð“ eða „mjög lítið af sjáanlegum ís í kari“.

Vitnað er í reglugerð 528/2012 þar sem hnykkt er á því „að kæla skuli afla eins fljótt og auðið er eftir að hann kemur um borð og skipsstjórandi skal geta sýnt fram á að hafa tekið nægan ís til veiðiferðarinnar.“

Eftirlitsniðurstöður Matvælastofnunar má lesa hér .