Starfsstöðvarnar eru alls 46 í fimm heimsálfum og starfsmannafjöldinn tæplega 1.200 manns. Undanfarin ár hefur félagið lagt áherslu á uppbyggingu á heimamarkaði.

Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjan Ísland, gerði grein fyrir rekstri og uppbyggingu félagsins á fundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), fyrir skemmstu. Fundurinn, sem var í Reykjavík, var sá tíundi og síðasti í fundarröð SFS um ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg, sem fram fóru um allt land í vor.

Jón Oddur gerði grein fyrir því að Hampiðjan Ísland er eitt af 31 fyrirtæki sem mynda samstæðu Hampiðjunnar. Innan þessa 31 fyrirtækis eru 46 starfsstöðvar í fimmtán löndum. Starfsmennirnir eru rétt tæplega 1.200 og þar af starfa um 90 þeirra á Íslandi, eða um sjö prósent starfsmanna. Fyrirtækið er leiðandi í hönnun og framleiðslu á veiðarfærum og ofurtógum en veltan á síðasta ári var rúmlega 25 og hálfur milljarður íslenskra króna – eða 173 milljónir í evrum talið.

Hampiðjan hefur verið mjög öflug í vöruþróunarstarfi í gegnum árin og dugleg við að skrá sín hugverk og er eigandi 30 einkaleyfa fyrir núverandi og mögulega tækni í veiðarfærum, ofurtógum og í olíuiðnaði, að því er kom fram í máli Jóns Odds.

Hringa landið

Sala og framleiðsla Hampiðjunnar nær til fjölmargra landa en sala innanlands er þó mest, þó litlu muni.

„Ísland er efst á síðasta ári eftir að starfsemi Hampiðjunnar Ísland óx mikið. Náði salan yfir sölu til Noregs og Færeyja,“ sagði Jón Oddur og þakkaði auknum umsvifum meðal annars að loðnubrestur er að baki með auknum verkefnum. Helstu vöruflokkar samstæðunnar eru flottroll, fiskeldisbúnaður og botntroll sem eru tæpur helmingur af sölunni en vöruflokkarnir eru annars fjölmargir.

Hampiðjan Ísland er með útstöðvar á fimm stöðum á landinu; Reykjavík, Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað og Vestmannaeyjum.

„Hampiðjan átti hér áður 51% hlut í veiðarfæragerðinni Fjarðanet sem var með starfsemi í Neskaupstað, Akureyri og Ísafirði. Hampiðjan rak þá sjálf netaverkstæði í Reykjavík og í Vestmannaeyjum auk söluskrifstofu í Reykjavík. Árið 2019 þá keypti Hampiðjan allt hlutafé í Fjarðanet og setti sína starfsemi inn í það félag og breytti nafninu í Hampiðjan Ísland.“

Fjölbreytt þjónusta

Auk sölu á ýmsum vöruflokkum þá veitir Hampiðjan fyrirtækjum margvíslega þjónustu. Má þar nefna viðhald veiðarfæra, vírastrekking inn á tromlur skipa, veiðarfæraskipti skipa, veiðarfærageymslu, skoðun öryggisbúnaðar eins og björgunarbáta auk þvottar, skoðun lyftibúnaðar fyrir verktaka auk sótthreinsunar og viðhalds fiskeldispoka. Má nefna að vírastrekkitæki hafa verið sett upp í Reykjavík, í Neskaupstað, Akureyri og í Vestmannaeyjum auk þess sem slíkt strekkitæki er á vélavagni svo hægt sé að veita þessa þjónustu hvar sem nauðsyn ber til.

„Á öllum starfsstöðvum okkar vinnum við náið með útgerðar- og skipstjórnarmönnum að endurbótum og hönnun veiðarfæra. Markmiðið er að auka veiði og minnka viðhald veiðarfæra og spara olíu. Það samstarf er okkur gríðarlega mikilvægt og erum við afar þakklátir útgerðinni fyrir hversu tilbúnar þær eru til að hjálpa okkur við þessa þróun og prófa fyrir okkur hluti sem verið er að hanna. Það er að sjálfsögðu ekki sjálfgefið því oft er ekki mikill tími þegar mikið liggur við,“ sagði Jón Oddur og bætti við að til þess að minnka áhættu þá eru nýjungar í veiðafæratækni reyndar í tilraunatanki í Danmörku þar sem skipstjórnar- og stýrimönnum er boðið með til skrafs og ráðagerða.

Jón Oddur Davíðsson
Jón Oddur Davíðsson

Uppbygging

Jón Oddur gerði grein fyrir endurvinnslu og áherslum Hampiðjunnar í umhverfismálum. Hampiðjan lítur á það sem hluta af sinni starfsemi að taka við veiðarfæraúrgangi og koma honum til endurvinnslu.

Að síðustu ræddi Jón Oddur uppbyggingu fyrirtækisins. Á Ísafirði er í byggingu átjánhundruð fermetra aðstaða þar sem netaverkstæði og fiskeldisþjónusta verður undir sama þaki. Verður það tekið í notkun í maí næstkomandi. Starfsemin í Neskaupstað er í nýju glæsilegu húsnæði, búið bestu fáanlegu tækjum, sem Hampiðjan byggði í samstarfi við Síldarvinnsluna. Það er 2.200 fermetrar að grunnfleti en sextán starfa í útibúinu. Húsnæðið var tekið í notkun árið 2020. Á Ísafirði og á Akureyri er starfsemin í eldri húsum, en í endurbættu húsnæði í Eyjum. Í Reykjavík er netaverkstæði og lager á 4.200 fermetrum og skrifstofur á 1.200 fermetrum í glæsilegri byggingu.

Gerði Jón Oddur grein fyrir því að á hinni stóru loðnuvertíð sem er nýlokið þurfti fyrirtækið margar hendur til viðgerða á veiðarfærum. Komu sjómenn þá til hjálpar með netagerðarmönnum og starfsmenn fyrirtækisins fluttir á milli starfsstöðva eins og nauðsyn bar til hverju sinni.

Grjóthopparinn endurunninn

Hampiðjan hefur selt útgerðum togveiðiskipa rockhopperlengjur – eða „grjóthoppara“ - í meira en þrjá áratugi og fram að þessu hafa lengjurnar farið í urðun eftir að þær hafa lokið hlutverki sínu. Nú vilja allir forðast urðun úrgangs og koma honum þess í stað í endurvinnslu innan hringrásarhagkerfisins.

Við þessu hefur Hampiðjan brugðist og lítur á það sem hluta af sinni starfsemi að taka við veiðarfæraúrgangi og koma honum til endurvinnslu.  Stærsti hluti notaðra veiðarfæra fer nú til endurvinnslu en vandamál hefur verið með gúmmíið í grjóthopparalengjunum. Eftir talsverða leit fannst að lokum endurvinnslufyrirtæki í Hollandi sem uppfyllir kröfur fyrirtækisins, eins og segir frá á heimasíðu Hampiðjunnar.

Árni Skúlason, framleiðslustjóri Hampiðjunnar, hefur leitt verkefni sem gerir viðskiptavinum félagsins kleift að losa sig við gömlu lengjurnar í endurvinnslu og forðast þannig óæskileg umhverfisáhrif sem fylgja urðun.

Mynd/Hampiðjan
Mynd/Hampiðjan

Yfir 30 ár í notkun

Í umfjöllun Hampiðjunnar kemur fram að grjóthopparinn komu í stað hefðbundinnar bobbingalengju úr stáli og gúmmíi fremst á neðra byrði trollsins. Hún er unnin úr stórum gömlum og notuðum stálstyrktum vinnuvéladekkjum. Munurinn er sá helstur að í stað þess að rúlla eftir botninum, líkt og hefðbundin bobbingalengja, dregst grjóthopparinn eftir botninum og yfir flestar fyrirstöður og hindranir.

Niðurstöður kanadískra rannsókna frá því um miðjan níunda áratuginn bentu til þess að með tilkomu þessara nýju aðferðar hefði dregið úr netasliti um 25% og olíukostnaði um 10-15%. Grjóthopparar voru fyrst reyndir hérlendis í árslok 1989 um borð í ferskfisktogurunum Ottó N. Þorlákssyni RE og Ásbirni RE. Það kom fljótt í ljós að nýja lengjan var til mikilla bóta, líkt og í Kanada. Trollin festust mun síður í botni og grjóthopparinn vafði ekki vængjunum eins mikið utan um sig eins og oft vill verða með venjulegri lengju og nánast ekkert grjót kom í trollið.

--