Áhöfnin á Kap VE kvartar ekki undan aflabrögðunum þessa dagana að því er fram kemur á vef Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
„Það er búin að vera fínasta veiði. Fínasta blanda. Einhver 20-25 tonn á dag," er haft eftir Kristgeiri Arnari Ólafssyni skipstjóra eftir spjall síðdegis í gær.
Aðspurður um hvernig vertíðin sé samanborið við sama tíma og í fyrra segir Kristgeir allt miklu seinna á ferðinni núna og alveg vanti loðnuna. Að meðaltali séu þeir að fiska um 27 tonn og þar af séu sjö til átta tonn af ufsa.
Eitt algengasta dýrið á sjávarbotni hér við land
Aðspurður um fæðu fisksins segir Kristgeir hann vera að éta burstaorma. „Maginn er fullur af því. Það er eitthvað sem við höfum ekki séð áður,“ er haft eftir honum á vsv.is þar sem sjá má meira spjall við skipstjórann.
Á vef Vinnslustöðvarinnar er síðan vitnað til fróðleiks um burstaorma af Wikipedia. Þar segir að burstaormar séu hryggleysingjar af fylkingu liðorma. „Þeir eru eitt algengasta dýrið á sjávarbotni hér við land og getur verið mörg þúsund burstaormar á hvern fermetra. Af þeim eru til meira en 6 þúsund tegundir sem flestar eru minni en 10 millimetrar á lengd en þó eru til stærri og allt upp í risaskera sem getur orðið nokkrir tugir sentimetra á lengd.“