Ketill Helgason, fiskverkandi og fiskútflytjandi, segir óljóst hvaða áhrif 15% tollur á fiskafurðir til Bandaríkjanna hafi í för með sér til lengdar litið. Þó virðist sem markaðurinn þar sé það sterkur að hann geti tekið við hækkunum sem af þessu leiðir. Ketill bendir á að ofan á tollahækkun bætist við sterk staða íslensku krónunnar gagnvart dollar og evru sem hafi jafnvel meiri áhrif á fiskútflytjendur en tollarnir.

Ketill rekur fyrirtækið Eric the Red Seafood ehf. og er með vinnslur í Sandgerði og Keflavík. Hjá fyrirtækinu starfa yfir 100 manns við framleiðslu að stærstum hluta á ferskum fiski. Langmest af framleiðslunni fer til Bandaríkjanna. Unnið er úr um það bil 10.000 tonnum af hráefni á ári.

„Það breytist ekkert verðið hjá okkur hérna heima þótt það leggist tollur ofan á þetta úti. Þeir leggjast bara ofan á það verð sem neytendur greiða í Bandaríkjunum. Hingað til hefur þetta ekki leitt til þess að dregið hafi úr eftirspurn. En að sama skapi hefur verð á ýsu til framleiðenda verið að lækka í verði sem vegur aðeins á móti. Það hefur verið meira framboð af henni á markaðnum en það er örugglega tímabundið ástand,“ segir Ketill. 15% tollur lagðist á íslenskar útflutningsvörur til Bandaríkjanna 7. ágúst síðastliðinn.

Fiskverð í hæstu hæðum í Bandaríkjunum

Hann bendir á að dollarinn sé núna lægri um langt skeið sem komi sér illa fyrir fiskútflytjendur. Auk þess hafi orðið almennar verðlagshækk anir. Segja megi að fiskverð í Banda ríkjunum sé nú í hæðum sem menn hafi ekki áður séð. Þrátt fyrir þetta hafi ekki borið á því að kaupendur haldi að sér höndum.

„Myndir þú hætta að kaupa fisk ef kílóið fer úr 2.800 kr. í 3.600 kr. svo dæmi sé tekið? Ég held að það breyti ekki öllu. Ætli menn sér á annað borð að kaupa fisk þá gera þeir það. Ég sé því ekki að þessi tollahækkun hafi haft áhrif ennþá. Verra er að það hefur orðið töluverð hráefnisverð hækkun undanfarna tólf mánuði hér innanlands. 95% af okkar framleiðslu fer til Bandaríkjanna og tveir þriðju af framleiðslunni er ferskur fiskur,“ segir Ketill.

Hann kveðst ekki uggandi um framhaldið og bendir á að það styrki útflutninginn í þorski að nú sé óheimilt að flytja inn unninn eða óunninn þorsk frá Rússlandi til Bandaríkjanna. Markaðurinn hafi því ekki úr miklu að moða hvað varðar þorsk. Á móti megi flytja út rússneska ýsu til Bandaríkjanna og hún komi þangað til dæmis í gegnum Kína.