Markaðir fyrir mjöl og lýsi frá íslenskum framleiðendum hafa verið þungir að undanförnu og verð með lægsta móti sem rekja má meðal annars til mikils framboðs frá Suður-Ameríku, ekki síst frá Perúmönnum sem höfðu veitt um tvær milljónir tonna af ansjósu á síðasta ári sem að stærstum hluta fer í mjöl og lýsisvinnslu. Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju, sagði afurðaverð hafa lækkað í takt við aukna veiði Perúmanna og það þrátt fyrir að enga loðnu sé að hafa á Íslandsmiðum né heldur í Barentshafi.
Jóhann Peter Andersen, talsmaður Félags fiskmjölsframleiðenda, segir að stór hluti af tekjum fiskmjölsverksmiðja verði til þegar loðna veiðist. Loðnuleysið nú sé því slæmt fyrir verksmiðjurnar en ekki síður fólkið sem vinnur við þetta.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Lítið framboð hafi verið frá Perú undanfarin misseri en svo virðist sem veiðin sé að koma upp aftur þar um slóðir. Framboð hafi alltaf áhrif á markaðinn. „Á vertíðinni á síðasta ári veiddu þeir yfir tvær milljónir tonna. Eftirspurn hefur vissulega aukist á mörkuðum með auknu fiskeldi en þó er eftirspurnaraukningin ekki alveg í takti við þá aukningu. Framleiðendur reyna stöðugt að minnka fiskimjöl og lýsi í fóðrinu því hvort tveggja er auðvitað takmörkuð auðlind. Framboð á lýsi hefur til dæmis verið stöðugt í kringum ein milljón tonn í mörg, mörg ár. Þegar þörf er fyrir meira lýsi leysa menn það með jurtaolíum. Sama á við um próteinið, þeir nota stöðugt meira jurtaprótein í sínar uppskriftir sem að okkar áliti gerir vöruna sem þeir framleiða lakari,“ segir Jóhann.
Brenna olíu
Allar fiskmjölsverksmiðjur hringinn í kringum landið nota að mestu leyti olíu til að knýja katlana vegna ástandsins í raforkumálum. Þannig hefur staðan verið síðastliðið hálft annað ár. „Landsvirkjun sleit samstarfi við verksmiðjurnar um rafmagn fyrir rafskautskatlana og hefur ekki samið við verksmiðjurnar um neitt rafmagn. Þess vegna brenna þær olíu með tilheyrandi útblæstri sem hefði verið hægt að komast hjá ef rafmagn væri til staðar. Þetta langt frá því að vera í takt við loftslagsmarkmið stjórnvalda og við höfum verið mjög óánægðir með forgangsröðunina. Hver verksmiðja hefur fjárfest fyrir milljarða króna til að taka upp rafskautskatla sem standa ónotaðir. Sú þróun hófst strax 1990 og voru verksmiðjurnar forgönguaðilar í því að breyta orkunotkun sinni úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlegt rafmagn. Þegar á reynir er þeim hent út og nýir notendur teknir inn, þar á meðal gagnaver. Það hefði þurft einungis um 7% af þeim styrkjum sem ríkið hefur lagt fram og niðurfellingu gjalda fyrir rafmagnsbíla til að standa fyrir fjárfestingum í dreifikerfinu sem hefði tryggt fiskmjölsverksmiðjunum fyrir austan rafmagn.“