Hið gamla björgunarskip Vestfirðinga, María Júlía BA 36, verður dregin til Akureyrar á næstu vikum ef veður lofar. Eftir frumathugun og lagfæringar þar fer skipið í slipp á Húsavík til frekari viðgerða.

„Það hjálpast allt að þó hægt gangi,“ segir Jón Sigurpálsson um björgun Maríu Júlíu BA-36. „Verkefnið fékk úr ríkissjóði úthlutun upp á 15 milljónir og einkaaðilar hafa gefið vilyrði um annað eins.“

María Júlía BA-36 þjónaði lengi sem björgunarskúta Vestfirðinga auk þess að hafa verið bæði notað sem hafrannsóknaskip og landhelgisgæsluskip. Skipið hefur árum saman legið undir skemmdum í Ísafjarðarhöfn þrátt fyrir að vera friðað samkvæmt lögum.

Jón er fyrrverandi forstöðumaður Minjasafns Vestfjarða og hann er í forsvari fyrir Hollvinasamtök Maríu Júlíu sem hafa barist fyrir því að skipið verði gert upp og því fengið nýtt hlutverk. Hann segir ástandið á Maríu Júlíu reyndar betra en ætla mætti, en skipið hefur árum saman verið geymt í Ísafjarðarhöfn.

Á ríkisstjórnarfundi í júní síðastliðnum var samþykktað veita 15 milljónum króna til að styrkja flutning Maríu Júlíu í slipp á Akureyri. Það fór þó svo að skipið fer í slipp á Húsavík en verður fyrst dregið til Akureyrar þar sem ástandið verður skoðað.

„Það er reiknað með að skipinu verði slefað til Akureyrar innan 2 - 3 vikna ef veðurfar leyfir. Þar verður gerð frumathugun, hreinsun og lagfæring og húsið fjarlægt. Eftir það fer María til Húsavíkur í slipp Norðursiglingar sem fóstra hana á meðan frekari skrokkviðgerð fer fram. Skipatæknileg hönnun og vinna er í startholunum og er kannski það sem liggur mest á fyrir utan björgun skipsins.“

Hann segir reiknað með að þetta verkefni taki að minnsta kosti fimm ár, þegar allt er talið. Einstaka verkþættir geti dreifst á nokkra staði sem hafa getu til að vinna svona sértæk verkefni.

„Það eru auðvitað óvissuþættir og ekki ósennilegt að eitthvað komi í ljós við slipptökuna. María fór síðast í slipp í Stykkishólmi 2008 og var þá ágæt á skrokkinn, síðan hefur hún legið við landfestar sem ekki hefur farið vel með hana.“

„Þetta er að mörgu leyti svolítið vandræðalegt mál,“ sagði Jón þegar Fiskifréttir ræddu við hann í vor, áður en ákveðið hafði verið að veita styrkinn.

„Mér finnst María Júlía vera svolítið táknmynd einhvers kerfis sem er bara ekkert að virka. Hún er sjósett 1948 og kemur til landsins 1950. Þar af leiðandi er hún friðuð. En hvað gerirðu við friðaða hluti? Þú setur ekkert lög um friðun ef ekki fylgir neitt fjármagn til að sinna því. Hvað verður þá um friðunina?“ sagði Jón þá, en þessi orð eiga að mörgu leyti enn við um gamla báta og skip sem víða um land liggja undir skemmdum þrátt fyrir að vera friðaðir eða eiga sér merkilega sögu.