Nýi stálbáturinn sem smíðaður var í Tyrklandi fyrir Stakkavík hefur fengið nafnið Margrét GK.

Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur sem hannaði bátinn í samstarfi við Ráðgarð Skiparáðgjöf, segir ekkert hafa orðið af því að báturinn kæmi hingað með sementsflutningaskipi eins og til stóð því það skip hafi ekki haft viðkomu hér.

„Við fengum tilboð frá aðila sem er á leiðinni frá Tyrklandi til Ameríku og kemur bara við hér með skipið og setur það hérna fyrir utan hjá okkur og heldur svo bara áfram. Við eigum von því á sunnudaginn eða á mánudag,“ segir Þráinn.

Báturinn var kominn upp með Portúgal síðastliðinn sunnudag að sögn Þráins.

„Við vorum að minnsta kosti sloppnir úr austanverðu Miðjarðarhafinu áður en þessi ósköp dundu yfir,“ segir Þráinn og vísar til átaka Ísraelsmanna og Hamasliða af Gazasvæðinu.

Hvítur eins og ísjaki

Þegar nýi báturinn er hingað kominn tekur við ýmis vinna við frágang sem áætlað er að taki um sex vikur.

„Við eigum eftir að taka hann upp og setja allt á dekkið á honum og tengja ýmsan búnað eins og krabbavélar og kælingu og klára glussalagnir á dekki og setja allan fiskvinnslubúnaðinn í hann,“ segir Þráinn og nefnir einnig vinnu í kringum ankerisvindu.

Ný báturinn verður málaður í aðeins einum lit. „Hann verður bara hvítur eins og ísjaki,“ segir Þráinn.

Fékk nafn í Tyrklandi

Áður en lagt var upp frá Tyrklandi var nýi báturinn merktur væntanlegu nafni sínu „Til þess að geta flutt hann út frá Tyrklandi varð að vera á honum nafn og númer,“ segir Þráinn. Þannig standi nú Margrét GK 9 og Grindavík á skipinu auk skipaskrárnúmersins sem er 3020.

Kveður Þráinn vonir standa til að hann verði afhentur Stakkavík fyrir lok nóvember.