Mikil óvissa enn ríkir um hvaða eldsneyti geti tekið við sem framtíðareldsneyti fiskiskipaflotans.
„Óvissa er um hvaða endurnýjanlega eldsneyti geti tekið við sem framtíðareldsneyti fiskiskipaflotans, en margir nýorkukostir eru í þróun,“ segir í skýrslu um Græn skref í sjávarútvegi, sem unnin var af starfshóp fjármálaráðherra og birt nú í júlímánuði.
Til lengri tíma litið muni hins vegar „orkuskipti um borð í skipum valda straumhvörfum í losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi.“
Í skýrslunni eru skoðaðir þeir kostir sem helst virðast koma til greina.
Rafmagn
Bein notkun rafmagns sem orkugjafi er sögð augljós valkostur í minni bátum. Raforka sé nú þegar notuð í Herjólfi, hvalaskoðunarbátum og þjónustuskipum fiskeldis. Notkun raforku í skipum muni eflaust halda áfram að vaxa en engu að síður séu veigamikil takmörk á notkun raforku sem orkugjafa í íslenskum fiskiskipum. Þetta kunni þó að breytast eftir því sem þróun rafhlaðna vindur fram.
Repjuolía
Helsti kostur repjuolíu er að hún gengur beint á núverandi vélar án nokkurra breytinga. Tæknin við framleiðslu sé vel þekkt og líklega er hægt að framleiða mikið magn af henni hér á landi. Óvíst sé þó hvort hagkvæmara sé að nota innlenda repjuolíu en erlenda. Hún sé samt líklega sá orkugjafi sem er að svo stöddu samkeppnishæfastur við jarðolíu en áhrif hennar til samdráttar í losun eru oft minni en margra annarra orkugjafa.
Vetni
Mikil áhersla sé lögð á vetnistækni í Evrópu og það gefi vonir um að framþróun þar verði meiri en í öðrum orkugjöfum til langar framtíðar litið. Líklega sé þó langt í að vetni verði nýtt á skipum í einhverjum mæli. Bæði framleiðsla og geymsla vetnis er tæknilega flókin og kostnaðarsöm, m.a. vegna sprengihættu. Þá er orkuþéttni vetnis talsvert minni en olíu sem takmarkar möguleika þess á stærri bátum.
Ammóníak
Nokkuð hefur farið fyrir umræðu erlendis um notkun ammóníaks sem eldsneytis, einkum í stærri skipum. Það er í sjálfu sér algjörlega kolefnisfrítt auk þess sem grunninnviðir til framleiðslu og geymslu ammóníaks eru til staðar á heimsvísu. Ekki er af því sprengihætta en aftur á móti er ammóníak eitrað og þótt skipaframleiðendur séu byrjaðir að hanna ammóníaksvélar verður sú tækni að teljast vera á frumstigi.
Metanól
Metanól hefur nú þegar verið framleitt í nokkrum mæli hér á landi. Engar tæknilegar hindranir eru í vegi þess að skala framleiðsluna upp þannig að hún nái að anna þörfum skipaflotans. Slíkt myndi þó kalla á raforkunotkun á við þrjár til fjórar stórar virkjanir, svo sem Blöndu- eða Hrauneyjafossvirkjun. Auk þess gengur metanól ekki á óbreyttar skipavélar og ekki er hægt að setja það á núverandi eldsneytistanka án endurbóta eða endurnýjunar.