Marel og Íslenski Sjávarklasinn hafa hafið samstarf sem miðar að því að styðja við aukna verðmætasköpun í bláa hagkerfinu. Marel mun styðja sérstaklega við nýtt verkefni sem Sjávarklasinn er að ýta úr vör - “Verbúð Sjávarklasans”.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Marel.

„Verkefninu er ætlað að efla tengsl og samvinnu rótgróinna fyrirtækja í bláa hagkerfinu við frumkvöðlafyrirtæki og rannsóknar- og þróunarteymi úr háskólasamfélaginu - með það fyrir augum að leysa áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, efla nýsköpun og auka nýtingu og verðmæti þess sem áður var hent,“ segir í tilkynningunni frá Marel.

Fram kemur að Marel verði bakhjarl verkefnisins auk þess sem sérfræðingar Marel muni styðja við frumkvöðla með handleiðslu og ráðgjöf. Verkefnið sé hugsað sem langtíma stuðningur við öfluga frumkvöðla og hefjist á því að rótgrónari fyrirtæki í samstarfsneti Sjávarklasans leggi til skilgreindar áskoranir sem þau standi frammi fyrir.

„Klasinn mun síðan auglýsa eftir einstaklingum eða teymum sem hafa þróað lausnir sem geta leyst úr þessum áskorunum. Lausnirnar verða svo metnar í samstarfi við fyrirtækin og álitlegustu teymin komast áfram í tveggja daga hakkaþon sem haldið verður á vormánuðum í samstarfi við Háskóla, nýsköpunar og iðnaðarráðuneytið. Sigurvegarar hakkaþonsins komast svo áfram í Verbúðina - þar sem langtíma stuðningur við frumkvöðla og lausnir þeirra fer fram í samstarfi við fyrirtækin, mentora og starfsfólk Sjávarklasans,“ segir í tilkynningunni.

Nýr vettvangur fyrir frumkvöðla

„Með þessu viljum við búa til vettvang þar sem unnið er með markvissum hætti að því að sannreyna og prófa lausnir frumkvöðla í raunheimum og stuðla að því að lausnir sem verið er að þróa í nýsköpunarumhverfinu þjóni atvinnulífinu. Að auki verða til mikilvægar tengingar og samtal sem ætlað er að ýta undir aukna verðmætasköpun í víðum skilningi og fanga óséð tækifæri,“ segir áfram í tilkynningunni frá Marel.

Marel var sproti fyrir meira en fjörutíu árum

„Marel hóf sitt ferðalag sem sproti í Háskóla Íslands fyrir meira en 40 árum og er í dag markaðsleiðtogi í þróun hátæknilausna fyrir matvælaiðnað á heimsvísu, með starfsstöðvar í yfir 30 löndum og viðskiptavini í 140 löndum. Ævintýrið um Marel hefði vart orðið að veruleika án stuðnings frá mennta- og rannsóknarstofnunum auk náins nýsköpunarsamstarfs við íslenskan sjávarútveg allt frá upphafi,“ segir einnig í tilkynningunni.

Íslenski sjávarklasinn frá 2011

„Íslenski sjávarklasinn hefur verið starfræktur frá árinu 2011 og á víðtækt samstarf við fjölda nýsköpunarfyrirtækja í bláa hagkerfinu; útvegar þeim aðstöðu, styrkir tengslanet þeirra og fjárfestir í sprotunum. Hús sjávarklasans er samfélag yfir 70 fyrirtækja og frumkvöðla í hafsækinni starfsemi - fyrirtæki í fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaði, hönnun, líftækni, snyrtivörum og ýmsu öðru. Markmið Sjávarklasans er að efla alla starfsemi tengda haf- og vatnasviði landsins og nýta innlenda tækniþekkingu til að efla verðmætasköpun og styrkja samkeppnishæfni okkar,“ segir að endingu í tilkynningunni.