Marel vann sigur í nýsköpunarkeppni Nor-Fishing sjávarútvegssýningarinnar fyrir lausn sína FleXicut, sem er nýjasta vöruþróun Marel. FleXicut markar fyrsta skrefið í nýrri kynslóð vinnslulína fyrir hvítfisk.
FleXicut , sem kynnt var fyrr á þessu ári sameinar tvö mikilvæg skref í vinnsluferlinu, að finna beingarðinn og fjarlægja hann af mikilli nákvæmni. FleXicut notar háþróaða röntgentækni til að greina og staðsetja beingarð í hvítfiski og sker svo beingarðinn burt með vatnsskurði af mikilli nákvæmni og hlutar flakið niður.
Verðlaunin voru afhent á Nor-Fishing sjávarútvegssýningunni í Þrándheimi í Noregi. Sýningin er haldin á tveggja ára fresti og nær til allra þátta innan fiskveiðigeirans.
Marel var í hópi þriggja fyrirtækja sem tilnefnd voru til nýsköpunarverðlaunanna fyrir framlag sitt til framfara í fiskiðnaði.
FleXicut var kynnt á bás Marel og hefur fengið mikla athygli á sýningunni. Við opnun sýningarinnar heimsóttu Sonja Noregsdrottning og Elisabeth Aspaker sjávarútvegsráðherra Noregs básinn þar sem þær fengu kynningu á því hvernig FleXicut virkar og af hverju lausnin mun umbylta hvítfiskvinnslu.
FleXicut er mikilvægt skref að nýrri kynslóð vinnslulína fyrir hvítfisk en með tilkomu lausnarinnar hefur mannfrekt ferli við beingarðsskurð verið vélvætt sem umbyltir hvítfiskvinnslu. Ekki aðeins mun tilkoma FleXicut minnka þörf á sérhæfðu vinnuafli heldur einnig auka gæði og nýtingu í vinnsluferlinu sem mun skila mikilvægri aukningu í verðmætum til viðskiptavina Marel.
Vatnsskurðurinn hefur það umfram hefðbundinn hnífsskurð, að hann býður upp á mun meiri sveigjanleika og nákvæmni, enda býr hann yfir þeim eiginleika að geta látið skurðinn fylgja legu beingarðsins með mismunandi halla mjög nákvæmlega. Með tilkomu þessarar sjálfvirkni mun ákvarðanataka um beingarðsskurð og niðurhlutun flaksins færast frá starfsfólki á snyrtilínum yfir í FleXicut. Það leiðir til betri nýtingar og meðhöndlunar hráefnis.