Nýjar rannsóknir, sem fram fóru á vegum A&M háskólans í Corpus Christi í Texas, sýna að meira en helmingur fisks í Mexíkóflóa hefur notið góðs af manngerðum sjávarrifum, að því er fram kemur á SeafoodSource. Hér er um að ræða borpalla og hluta þeirra sem skapa skjól eins og náttúruleg rif og safna gróðri.

Fisktegundin „red snapper“ er mikilvægasti nytjafiskurinn í Mexíkóflóa. Mjög mikið af honum leitar skjóls í þessum tilbúnu rifum. „Margt bendir til að „red snapper“-stofninn væri ekki jafn sterkur og hann er í dag ef við hefðum ekki alla þessa borpalla sem breytt hefur verið í rif,“ segir einn vísindmanna við A&M háskólann. Alls fundust 52 fisktegundir á 13 stöðum sem nýttu sér manngerðu rifin. Sjá nánar á vef SeafoodSource .