Samningar Byggðastofnunar og sjávarútvegsfyrirtækisins Toppfisks um kaup á eigum þrotabús Eyrarodda á Flateyri eru ekki enn frágengnir, að því er fram kemur á vefnum bb.is. Að sögn Hjalta Árnasonar, lögfræðings Byggðastofnunar, er þó enn stefnt að sömu niðurstöðu þótt samningarnir hafi tafist.
„Toppfiskur hefur enn áhuga á fiskvinnslunni og hyggst auka við vinnsluna frá því sem verið hefur síðustu ár. Það er þó ýmis formsatriði sem ganga verður frá áður en af kaupunum getur orðið. Þar á meðal eru atriði er varða þinglýsingar á eignum þrotabúsins, en þau eru til skoðunar hjá sýslumanni. Þá er töluvert langt um liðið frá því að vinnsla var í húsinu og það er verið að kanna hvort það standist allar þær kröfur sem erlendir kaupendur gera, sem og innlendir eftirlitsaðilar,“ segir Hjalti í viðtali við bb.is.
Fram kemur að leigusamningur um fiskvinnsluhúsið sem fyrirtækið Lotna ehf. gerði við þrotabúið sé að renna út. Lotna hafi hins vegar fest kaup á nokkrum fasteignum úr þrotabúi Eyrarodda sem Byggðastofnun átti ekki veð í og áformi að flytja fiskvinnslu sína yfir í þau hús.
Aðspurður segist Hjalti ekki geta fullyrt hvenær samningum við Toppfisk ljúki. „Það verður allavega ekki í þessari viku, en vonandi getum við gengið frá þessu í næstu viku,“ segir Hjalti.