Makrílvinnsla hófst hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sl. laugardag. Kap VE kom með fyrsta makrílfarminn til Eyja á laugardagsmorgun, um tvö hundruð tonn.
Annað skip Vinnslustöðvarinnar, Sighvatur Bjarnason VE, var á landleið með um 140 tonn af makríl síðdegis í gær, en hann er á partrolli með Ísleifi VE.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Helgi Valdimarsson, skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE, sagði í viðtali við blaðið að veiðin hefði verið fremur dræm í gær en góð á föstudag og laugardag. »Sjórinn var kominn alveg í um tíu gráður á bletti þar sem við vorum. Þetta er allt í lagi,« sagði Helgi. Þeir fengu makrílinn djúpt suður af Vík í Mýrdal. »Makríllinn er mjög góður. Meðalvigtin hefur verið 340-390 grömm. Það er bara mjög gott.«