„Vertíðin hefur verið vonum framar,“ segir Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju á Eskifirði, um makrílveiði sumarsins sem nú er að ljúka.

Aðalsteinn Jónsson SU 11 átti að koma til hafnar úr Smugunni nú að morgni miðvikudags með síðasta makrílfarm vertíðarinnar hjá Eskju „Og þá er bara kvótinn búinn,“ segir Hlynur.
Alls segir Hlynur skip Eskju hafa veitt tæp fimmtán þúsund tonn af makríl að þessu sinni. Það sé upp í úthlutaðan kvóta ársins, auk þess sem geymdar hafi verið heimildir frá í fyrra og viðbótarheimildir sem fyrirtækið hafi aflað sér.
„Þetta hefur gengið nokkuð vel, það var ágætis veiði í íslenskum sjó framan af og svo var farið út í Smugu. Hráefni síðustu farma þaðan hefur verið mjög gott. Það kom smærri makríll aðeins inn og svo hefur verið góður og stór makríll,“ segir Hlynur.
Sterkir markaðir
Að sögn Hlyns voru skoðanir manna á horfunum fyrir vertíðina skiptar.

„Reyndir menn sögðu að það væru góð skilyrði í hafinu í ár, bæði heitur sjór og áta í sjónum. Þannig að sumir voru bjartsýnir á meðan aðrir voru svartsýnir. Í fyrra gekk veiðin ekki sérstaklega vel og það má segja að Smuguveiðin í fyrra hafi brugðist. En Smuguveiðin í ár gekk mjög vel. Þar voru menn að toga upp í fimmtán, sextán gráðu heitum sjó. Þannig að skilyrðin í sjónum voru hagstæð í ár,“ segir Hlynur.
Makríllinn hefur skilað sér í góðri afurð, sérstaklega undanfarið að sögn Hlyns.
„Fyrstu farmarnir sem voru veiddir í Smugunni í enda júní voru ekkert sérstakir en um leið og við fórum að veiða í íslensku lögsögunni varð þetta betra. Og svo þegar við komum aftur út í Smugu hefur verið þokkalegt hráefni, sérstaklega síðustu farmarnir,“ segir hann. Lítil áta hafi verið í fisknum eða undir tveimur punktum sem sé mjög gott.
Söluhorfurnar fyrir makrílinn segir Hlynur vera góðar. „Markaðirnir eru nokkuð sterkir. Við fundum það strax og við byrjuðum að það var vöntun á makríl.“
Síld bíður við bæjardyrnar
Mikil ánægja hefur verið í vinnslunni með aflann sem skilað hefur verið til hafnar.
„Það hefur verið frábær stemning í sumar. Þetta hefur skilað fólkinu góðum launum á vertíðinni. Það eru allir glaðir, ekki síst að geta endað á að klára kvótann og þurfa ekki að skilja neitt eftir fyrir næsta ár. Það er frábær staða,“ segir Hlynur sem kveður flestar aðrar útgerðir einnig vera á síðustu förmunum.
Nú þegar makrílvertíðinni er að ljúka er farið að huga að næsta viðfangsefni sem er norsk-íslenska síldin.
„Við ætlum að reyna að fara tvo túra í næstu viku og vera búin að landa tveimur förmum fyrir mánaðamót. Þá er bara farið hérna rétt út fyrir bæjardyrnar,“ segir Hlynur. Áhafnir skipanna hafi orðið varar við síld á landleiðinni.
„Við erum bjartsýn á síldina. Það verður ekkert vandamál að ná henni og hefur ekki verið síðustu ár. Það er nóg að gera og þá er þetta skemmtilegt,“ segir Hlynur Ársælsson.