Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út reglugerð sem bannar makrílveiðar í net. Þetta gengur þvert á fyrri ákvörðun ráðuneytisins um að taka frá 3.000 tonna kvóta til veiða á makríl í net, á línu, handfæri og í gildrur og hafa allmargar útgerðir þegar keypt sér sérstök net til þessara veiða.
Fiskifréttum tókst ekki að ná sambandi við neinn í sjávarútvegsráðuneytinu vegna þess máls í morgun og engar skýringar eru gefnar á vef ráðuneytisins.
Arnar Jóhannsson á Birtu SH, einn þeirra sem hefur verið að undirbúa sig á makrílveiðar í net, furðar sig á málsmeðferð ráðuneytisins. Hann segist hafa lagt mikla vinnu í að græja sig á veiðarnar og hafi pantað net til þeirra. Hann kveðst vita um eigendur fjögurra annarra báta á Snæfellsnesi sem séu í sömu sporum og hann.