Norski haffræðingurinn Jens Christian Holst telur að markílstofninn í Noregshafi, milli Íslands og Noregs sé hættulega stór. Þetta kom fram á vefsíðunni ABC-Nyheter fimmtudaginn 1. ágúst. Leif Nøttestad, makrílsérfræðingur norsku hafrannsóknastofnunarinnar segir að makrílstofninn sé á sögulegu stigi: „Við höfum séð gífurlega útbreiðslu makríls, hann heldur sífellt norðar,“ sagði hann við NRK, fréttastofu norska ríkisútvarpsins. Frá þessu er greint í frétt á Evrópuvaktinni.

Á vefsíðunni ABC. Nyheter er minnt á á heildarkvótar í Noregshafi skiptist milli Noregs, ESB, Færeyja og Íslands sem eigi land að hafinu. Veiðin ráðist af stærð viðkomandi fiskstofns.

Jens Christian Holst telur að ofvöxtinn í makrílstofninum megi rekja til þess að menn einblíni um of á ofveiði þar sem veiðilíkanið nú taki ekki tillit til þess að fiskstofn geti orðið of stór.

„Ofveiði felur í sér alvarlega ógn. Hitt að veiða of lítið er enn verra, þá er vegið að stofninum neðar í fæðukeðjunni og við verðum að rækta upp stofna á öllum stigum allt frá grunni,“segir Holst við NRK.

Holst telur að makrílstofninn hafi stækkað svo að ekki sé nein stjórn á honum og hann sé líklega þrisvar til fjórum sinnum stærri en alþjóðlegar rannsóknastofnanir telji. Afleiðingin sé að makríll sé að eyðileggja fæðukeðjuna í Noregshafi. Hann telur að það hafi leitt til fæðuskorts hjá síld og síldarstofninn sé á hraðri niðurleið.

Til að hindra hrun síldarstofnsins telur Holst að grípa verði til skjótra ákvarðana og auka veiðar á makríl og koma honum á sjálfbært stig. Hann telur hæfilegt að skera stofninn niður um helming með veiðum, segir ennfremur á vef Evrópuvaktarinnar.

Sjá nánar á http://evropuvaktin.is/frettir/29615/