Í árlegum rannsóknaleiðangri í Barentshafi fannst meira af makrílseiðum (0-grúppu) en sést hefur í langan tíma. Seiðin hafa einnig aldrei fundist jafnaustarlega í Barentshafi og nú.
Þetta kemur fram í frétt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar þar sem vitnað er í Elena Eriksen fiskifræðing. Hún tekur þátt í leiðangrinum sem stendur enn yfir. Meirihlutinn af makrílseiðunum fannst norður af Finnmörk en vart var við seiðin allt austur að 40°A. Hlýnandi sjór er sennilega skýringin á því hvað seiðin hafi fundist langt austur í Barentshafi.