Samkomulahg hefur tekist milli Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja um nýjan makrílsamning án Íslands. Í fréttatilkynningu frá ESB er greint frá samkomulaginu en ekkert sagt nánar um innihald hans. Sagt er þó að önnur strandríki geti gerst aðilar að samningnum á síðari stigum.

Á vef samtaka norskra útvegsmanna segir að heildarkvótinn samkvæmt samningnum sé 1.240 þúsund tonn. Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins fyrir árið 2014 er hins vegar 890 þúsund tonn en boðað hefur verið að ráðgjöfin verði endurskoðuð í vor.

Á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins kemur fram að kvótinn skiptist þannig að Norðmenn fái um 279 þúsund tonn (22,5%), ESB um 611 þúsund tonn (49,3%)  og Færeyingar 156 þúsund tonn (12,6%). Um 42 þúsund tonn eru skilin eftir til veiða á alþjóðlegu hafsvæði. Samtals eru þetta 1.088 þúsund tonn (87,7%). Eftir standa um 152 þúsund tonn (12,3%) en ekki er þess getið hvernig samningsaðilar hugsi sér að þeim sé ráðstafað. Hins vegar segir á vef ESB að samningurinn geri ráð fyrir þátttöku annarra strandríkja síðar.

Samningurinn er til fimm ára og í honum segir að hlutfallsleg skipting heildarkvóta verði hin sama á árunum 2015 til 2018 og er fyrir árið 2014.