Hæstiréttur Íslands hefur fallist á að fjalla um mál Félags makrílveiðimanna gegn íslenska ríkinu. Málið „geti haft fordæmisgildi um þau réttindi sem á reynir í málinu“.

Það var í janúar 2020 sem Félag makrílveiðimanna stefndi íslenska ríkinu og krafðist viðurkenningar dómsins á því að „óheimilt hafi verið að takmarka heimildir félagsmanna hans til veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofninum, með því að úthluta til einstakra skipa aflahlutdeild á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008-2018, að báðum árum meðtöldum“.

Til vara kröfðust makrílveiðimenn viðurkenningar á því að ríkinu hefði verið óheimilt að takmarka heimildir þeirra til ráðstöfunar á aflaheimildum í B-flokki Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofnsins“.

Ári síðar, í janúar 2021, sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur ríkið og Landsréttur staðfesti þann dóm í júní 2022.

Víðtækar heimildir

Bæði Héraðsdómur og Landsdómur höfnuðu því að ríkinu hefði verið óheimilt að miða veiðireynslu við tíu ára tímabil, enda hefði ítrekað verið viðurkennt í dómaframkvæmd að löggjafinn hafi víðtækar heimildir þegar kemur að „stjórn á veiðum og nýtingu sjávarauðlinda í hafinu umhverfis landið“.

Auk þess taldi Landsdómur, rétt eins og Héraðsdómur, að skipting makrílveiðiskipa í A og B flokk hefði verið lögmæt enda „í mörgum atriðum um ósambærilegar veiðar að ræða“. Enn fremur teljist það málefnalegt að „leggja sérstaka áherslu á að viðhalda útgerð þeirra skipa sem falla í B-flokk“, nefnilega króka- og línubáta, og þar með að setja skorður við framsal veiðiheimilda úr B flokki yfir í A-flokk stærri skipa.

„Sérreglur um veiðar smærri skipa og takmarkanir á framsali heimilda til stærri skipa hafi lengi verið grunnþáttur við stjórn fiskveiða,“ segir Landsdómur um sjónarmið ríkisins, „en takmarkalaust framsal myndi grafa undan slíkum veiðum“.

Mismunun

Félag makrílveiðimanna segir þessar takmarkanir á framsali aflaheimilda fela í sér ólögmæta mismunun, enda eigi slíkar takmarkanir ekki við um A flokk.

„Telur áfrýjandi að með þessu hafi einni helstu stoð aflamarkskerfisins, sem felist í sveigjanleika við nýtingu aflaheimilda, verið kastað fyrir róða af löggjafanum“, að því er segir í dómi Landsdóms. „Takmarkanir á framsali aflamarks úr B-flokki sem bundið sé við vissar tegundir í þorskígildum leiði til þess að enginn muni telja slík viðskipti fýsileg, standi markaðsverð á makríl illa, og þá vænlegra að kaupa slíkt aflamark í frjálsum viðskiptum í A-flokki.“

Nú kemur til kasta Hæstaréttar að skera endanlega úr um þetta deilumál.