Makríllinn skilaði næst mestum útflutningsverðmætum einstakra fisktegunda á árinu 2011, aðeins þorskurinn skilaði þjóðarbúinu meiri verðmætum í fyrra. Þetta kemur m.a. fram í grein sem Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, skrifar í Morgunblaðið í morgun.
Í greininni vekur Friðrik athygli á því hversu miklir hagsmunir séu í húfi fyrir Íslendinga í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir við Evrópusambandið og Noreg um skiptingu veiðiheimilda úr makrílstofninum en þar hefur hlutur Íslands verið 16-17% af heildarveiði.
,,Á fundi sem haldinn var á Írlandi í desember 2011 þótti ESB hæfa að hlutur Íslands verði 6,5%. Það er nánast sami hlutur og ESB hefur í norsk-íslensku síldinni sem er 6,51%, en engin norsk-íslensk síld er í lögsögu ESB. Enn áhugaverðara er að bera þetta saman við það sem ESB þykir hæfa sem hlutur sambandsins í úthafskarfanum. Eftir margra ára þjark náðist í fyrra samkomulag þar sem ESB fékk 15,45% af úthafskarfanum í sinn hlut. Ekki þarf að hafa mörg orð um úthafskarfa í lögsögu ESB enda kemur hann þar hvergi nærri,“ segir Friðrik.
Sjá greinina í heild á vef LÍÚ .