Sameiginlegar rannsóknir Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga í sumar í Norðaustur-Atlantshafi leiddu í ljós að útbreiðsla makríls náði lengra til norðurs og vesturs en áður hefur sést. Stærsti makríllinn gengur líka nyrst og vestast.
Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum í viðtali við Svein Sveinbjörnsson fiskifræðing. ,,Makríll sótti í sumar meira inn á íslenskt hafsvæði en áður hefur þekkst og hans varð vart hringinn í kringum landið. Í ár fylgdum við makrílnum alveg norður á 67. gráðu og hann gekk örugglega töluvert norðar en það,” segir Sveinn.
Ekki tókst að mæla magn makrílsins á einstökum hafsvæðum í NA-Atlantshafi eins og til stóð en bætt verður úr því á næsta ári.
Sjá nánar viðtalið við Svein í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.