Leif Nöttestad, einn helsti sérfræðingur uppsjávarfiska hjá norsku hafrannsóknastofnuninni, segir að aukning makríls í hafinu geti komið niður á norsk-íslenska síldarstofninum.
Makríllinn leiti til dæmis inn á norsku firðina og éti ungviði síldarinnar. Í viðtali á vef norska útvarpsins á Rogalandi hvetur Nöttestad alla til að ýta báti úr vör í fríinu og fiska eins mikið af makríl og þeir geti. Nóg sé af honum.
Fram kemur að í sumar verði farið í stóran fjölþjóðlegan makrílleiðangur til þess að kanna stærð og útbreiðslu stofnsins. Mjög skiptar skoðanir séu um stærð stofnsins og því þurfi að afla frekari þekkingar á honum.
,,Það lítur út fyrir að makrílstofninn sé í vexti, hann breiðir hratt úr sér og það er makríl að finna bókstaflega út um allt,“ segir Nöttestad.