Nú er ljóst að makrílkvóti Norðmanna á þessu ári verður ekki aukinn. Þetta hafa samtök norskra útvegsmanna fengið staðfest í norska sjávarútvegsráðuneytinu.

Um miðjan þennan mánuð sagði norski sjávarútvegsráðherrann að ný vísindaleg gögn kynnu að verða til þess að makrílkvótinn yrði aukinn. Sá möguleiki hefur nú verið sleginn út af borðinu.

Á vef norskra útvegsmanna segir að nauðsynlegt hafi verið að fá á hreint strax hvort af kvótaaukningu yrði svo markaðirnir gætu aðlagað sig að breyttu framboði. Fram kemur að þrátt fyrir þessa niðurstöðu sjái menn fram á góða makrílvertíð í haust en aðalmakrílveiðitími Norðmanna fer nú í hönd.