Matvælaráðuneytið hefur með reglugerð úthlutað 111.533 tonna makrílkvóta til íslenskra útgerða á þessu almanaksári. Leyfilegur heildarafli verður því nálægt 120.000 tonn með þeim 8.743.000 tonnum sem ekki veiddust í úthlutuninni á síðasta ári.

Vænta má að veiðar hefjist í þessum mánuði og er víða verið að gera uppsjávarskip klár til veiða. Stærsti hluti kvótans fer til Vestmannaeyja, alls tæp 30.000 tonn, þ.e. 14.500 tonn til Ísfélagsins hf. og samtals 15.450 tonn til Vinnslustöðvarinnar og Hugins. Brim er kvótahæsta útgerðin með 22.700 tonn og Síldarvinnslan í Neskaupstað fær til sín tæp 14.000 tonn. Úthlutun til Samherja er 12.800 tonn.

Í september á síðasta ári lagði Alþjóðahafrannsóknaráðið að afli ársins 2024 verði ekki meiri en 739 þúsund tonn sem er 5% lækkun frá fyrra ári. Áætlað var að heildarafli ársins 2023 hafi verið ríflega 1,1 milljón ton sem var 47% umfram ráðgjöf.

Ekki er í gildi samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr makrílstofninum um skiptingu aflahlutdeildar sín á milli. Frá árinu 2010 hafa veiðar umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins numið 9-86% á ári og að meðaltali 40%.