Samhliða frumvarpi um veiðigjald hefur sjávarútvegsráðherra lagt fram frumvarp um tímabundna kvótasetningu á makríl, að því er frem kemur á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Sjá makrílfrumvarpið HÉR .
Á vef ráðuneytisins segir einnig að til að stuðla að ákveðnum fyrirsjáanleika í veiðunum verði kveðið á um að úthlutun aflahlutdeildar gildi í sex ár og verði ekki felld niður að hluta eða öllu leyti nema með minnst sex ára fyrirvara og framlengist hún því um ár í senn sé ekki kveðið á um breytingar.
Verði frumvarpið að lögum munu aflahlutdeildirnar skiptast á eftirfarandi hátt:
· 5% verður úthlutað á grundvelli veiðireynslu til þeirra sem stunduðu veiðar á línu og handfæri á árunum 2009-2014. 43% aukið vægi verður á þá veiðireynslu sem fengin er á árunum 2009-2012 þar sem sannarlega var verið að þróa veiðitækni og veiðarfæri sem þeir sem á eftir komu nutu góðs af.
· 95% koma til annarra skipa. Þar af verður 90% úthlutað á grundvelli veiðireynslu á árunum 2011-2014. 5% verður til umsókna sem viðbótaraflahlutdeild til þeirra skipa sem lönduðu afla til manneldisvinnslu á árunum 2009-2010 en stjórnvöld hvöttu á þeim tíma eindregið til ábyrgrar umgengni og manneldisvinnslu á makríl.
Tíu króna aukagjald
Í frumvarpinu um veiðigjöld er lagt til sérstakt álagsgjald á veiðigjald í makríl, 10 krónur á landað kíló. Það ákvæði muni gilda til sex ára. Gjaldið er sérstakt endurgjald fyrir úthlutun aflahlutdeildarinnar. Tekjur af þessu gjaldi eru áætlaðar rúmar 1.477 milljarðar á ári sem koma til viðbótar þeim veiðigjöldum sem fjallað er um að framan.