Nýsmíðin, dráttarbáturinn Magni, er á leið til lands frá Hollandi eftir að hafa verið þar í viðgerð eftir að alvarlegir ágallar komu fram á bátnum eftir afhendingu 27. febrúar 2020. Fulltrúar Damen skipasmíðastöðvarinnar sem smíðuðu bátinn munu koma hingað nokkrum sinnum á tveggja ára ábyrgðartímabili dráttarbátsins til eftirlits og til að taka olíusýni úr honum og greina þau.

Í frétt á heimasíðu Faxaflóahafna segir:

Árið 2018 ákváðu Faxaflóahafnir að festa kaup á nýjum dráttarbát á grundvelli þeirra breytinga sem orðið höfðu á skipakomum til hafna fyrirtækisins undanfarin ár, ásamt fyrirsjáanlegum breytingum á stærð skipa í framtíðinni. Talin var þörf á mun öflugri og stærri dráttarbát til þess að unnt væri að þjónusta stærri skip með öruggari hætti.

Nýr dráttarbátur Faxaflóahafna, Magni, kom til Reykjavíkurhafnar 27. febrúar 2020 og var þar með öflugasti og fullkomnasti dráttarbátur landsins en kaupverð bátsins var tæplega 1.200 milljónir króna. Fljótlega eftir móttöku á bátnum í Reykjavík kom þó í ljós að ekki var allt með felldu varðandi virkni bátsins. Í ljós komu alvarlegir ágallar sem reynt var að vinna bót á af fulltrúum Damen, sem smíðaði bátinn, og sendir voru til Íslands. Sökum aðstæðna vegna heimsfaraldurs ásamt því hversu alvarlegir ágallar höfðu komið fram var tekin sú ákvörðun að sigla Magna til Hollands 9. júlí 2020, þar sem aðstæður voru taldar betri þar til þeirra viðgerða sem þörf var á. Hefur dráttarbáturinn verið þar í viðgerð síðan en Damen lánaði í staðinn dráttarbátinn Phoenix meðan viðgerð fór fram.

Eftir langt tímabil viðgerða í Rotterdam, lagði Magni af stað laugardaginn 15. maí frá Rotterdam til Reykjavíkur. Áætlaður komudagur er föstudagurinn 21. maí. Fimm manna áhöfn á vegum Damen siglir Magna heim en sama áhöfn á vegum Damen mun síðan sigla Phoenix til Rotterdam. Við afhendingu á Magna í Reykjavík mun byrja tveggja ára ábyrgðartímabil Damen á bátnum, þar sem fulltrúi fyrirtækisins munu koma nokkrum sinnum á ábyrgðartímabilinu til eftirlits auk þess sem olíusýni verða tekin og greind með reglubundnum hætti að forskrift Damen.