Fóðurfyrirtækið AgriProtein í Suður-Afríki er ekki í hefðbundinni framleiðslu. Það notar flugur við framleiðslu á mjöli. Fyrirtækið er nú að færa út kvíarnar víða um heim bæði í Evrópu, Ameríku og Asíu. Það hefur aflað sér 17,5 milljóna dollara (tæpir 2 milljarðar ISK) til að fjármagna útrásina. Fyrirtækið er nú metið á 117 milljónir dollara (13,2 milljarða ISK).
Mikil eftirspurn er eftir mjöli sem komið getur í stað fiskimjöls í fóður fyrir fiskeldi og kjúklingarækt.
AgriProtein framleiðir prótínríkt fóður úr lirfum flugna (Black Soldier Fly). Lirfurnar eru þurrkaðar og muldar. Lirfurnar eða maðkarnir eru fóðraðir á lífrænum úrgangi. Um 8,5 milljarðar flugna eru virkjaðir við framleiðsluna en maðkar þeirra geta endurunnið um 250 tonn af úrgangi á dag og „uppskeran“ er um 50 tonn af möðkum á dag. Úr möðkunum er unnið bæði mjöl og olía. Maðkarnir hafa einnig umbreytt úrganginum í gróðurmold sem er þriðja framleiðsluvara AgriProtein.
AgriProtein var stofnað árið 2008 og fyrstu árin fór fram tilraunaframleiðsla í smáum stíl. Árið 2015 hófst framleiðslan fyrir alvöru í samkeppni við annað fóður. Þá var byggt 9 þúsund fermetra verksmiðjuhús í Höfðaborg. Segja má að með þessari framleiðslu öðlist hugtakið „maðkað mjöl“ aðra merkingu.