Áströlsk stjórnvöld gætu sparað allt að 4,2 milljörðum ástralska dollara (um 570 milljarða ISK) ef allir þeir, sem lifað hafa af hjartaáfall, breyttu um lífsstíl og færu að taka lýsi eða ykju neyslu sína á feitum fiski.

Þessar niðurstöður er að finna í skýrslu sem Deloitte vann fyrir heilbrigðisyfirvöld í Ástralíu. Forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins segja að þessum árangri megi ná ef allir hjartasjúklingar næðu besta árangri sem er í boði. Auk lýsisneyslu yrði fólk líka að breyta lífsstíl sínum að öðru leyti.

Til að bæta heilsuna er ráðlegt að dagskammtur fullorðinna af omega-3 fitusýru sé 500 milligrömm en ef menn þjást af hjartasjúkdóm er mælt með 1.000 milligrömmum.