Hópur íslenskra vísindamanna undir forystu Einars Stefánssonar, prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands, hefur sýnt fram á með frumuræktun að fríar fitusýrur, sem er að finna í lýsi, eyðileggja veirur á skömmum tíma.

Rannsóknin var gerð með bandarískum samstarfsaðilum. Hún miðaði að því að fá niðurstöður úr lýsi með 1% hlutfalli af fríum fitusýrum og 2% hlutfalli. Í báðum tilvikum eyðilögðust 99,9% SARS COV 2 veirunnar, kórónuveirunnar sem veldur Covid 19, á um tíu mínútum.

Morgunblaðið greindi frá upphafi rannsóknarinnar í frétt ViðskiptaMoggans í lok mars.

Einar leggur áherslu á að niðurstöðurnar hafi fengist úr frumuræktun en ekki rannsóknum á sjúklingum.

„Annað sem er mjög mikilvægt að átta sig á er að fríu fitusýrurnar eru náttúrulegt niðurbrotsefni í lýsi. Það ræðst að miklu leyti af framleiðsluaðferðinni, geymsluaðferðum og fleiri þáttum hve mikið er af fríum fitusýrum í lýsi. Í gamla daga, þegar framleiðsluaðferðir voru frumstæðari og geymsla lýsis með ýmsum hætti var umtalsvert magn af fríum fitusýrum í lýsi. Á síðari árum, með bættum framleiðslu- og geymsluaðferðum verður til minna af þessu niðurbrotsefni í lýsinu. Það sem við erum því raunverulega að gera í þessari rannsókn er að búa til gamla lýsið á ný með því að bæta fríum fitusýrum við það,“ segir Einar.

Gagnsemi lýsis tvíþætt

Hann segir að Halldór Þormar, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, hafi hafið rannsóknir á fitusýrum fyrir 30 árum og sýnt fram á að þessar fitusýrur eyðileggi hjúpaðar veirur. Það eru veirur sem eru með fituhimnuhjúp í kringum sig, til dæmis herpesveirur, RS-Veirur og kórónuveirur.

Einar segir að gagnsemin af lýsi sé að minnsta kosti tvíþætt. Síðustu áratugi hafi mesta áherslan verið lögð á mikilvægi ómega fitusýra sem byggingarefnis í líkamanum sem er gott fyrir hjarta- og jafnvel heilastarfsemi. Hin hlið ómega fitusýranna er sýkladrepandi verkun frírra fitusýra sem er alveg sjálfstæð verkun.

„Það eru því tvenns konar, alveg sjálfstæðar og í raun mjög ólíkar verkanir af lýsinu; annars vegar hin fjölómettuðu áhrif ómega fitusýranna og hins vegar hin sýkladrepandi áhrif sem við erum að skoða.“

Hann segir að lýsi sem var gefið grunnskólabörnum á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar hafi verið súrara og bragðverra en það er núna. Það helgaðist af því að lýsið hafði brotnað meira niður og myndað meira af fríum fitusýrum. Lýsi sem framleitt er núna og fæst í verslunum er með minna magni af þessari gerð fitusýra en var áður og styrkleikinn er misjafn eftir vörumerkjum.

Klínískar rannsóknir að hefjast

Áhrif frírra fitusýra á veirur eru mjög háð styrk þeirra í lýsinu. Einar segir að vitað sé að 0,1% styrkur hafi engin áhrif í þessa átt meðan 1% og 2% eyðileggja 99,9% veiranna.

„Norðmenn eru að setja af stað mjög stóra rannsókn á áhrifum lýsis. Þar er á ferð nákvæmlega sama hugmyndin og við höfum verið að vinna að. Íslenska líftæknifyrirtækið Kerecis hefur einnig sett á markað vöru sem er þó í öðru formi þar sem fríu fitusýrurnar eru virka efnið.“

Hópurinn hefur fengið samþykki vísindasiðanefndar fyrir rannsókn á áhrifum þessa efnis á menn. Fyrsti fasi rannsóknarinnar er að hefjast með þátttöku 30 sýktra einstaklinga. Þeim verður gefið lýsi á Landspítalanum með hærra hlutfalli frírra fitusýra.

„Við munum mæla hvort lýsið dragi úr veirumagni í munnholi og hálsi. Úrtakið er ekki stórt en nægir þó til þess að gefa vísindalegt svar.“ Seinni fasi rannsóknarinnar verður umtalsvart umfangsmeiri.

Einar segir að rannsókn af þessu toga taki talsverðan tíma og hún verði gerð á hefðbundnum hraða. Tímarnir séu vissulega breyttir þegar rannsóknir og þróun bóluefnis fer fram á átta mánuðum sem undir venjulegum kringumstæðum hefði tekið sex ár. Enda liggja þar að baki gríðarlegir hagsmunir og efnahagslegt bakland.

Verði niðurstöður rannsóknarinnar jákvæðar getur það haft mikil áhrif á forvarnir og um leið markaðssetningu lýsis með réttu magni frírra fitusýra.