Börkur NK kom síðdegis í gær með 1.470 tonn af síld til Neskaupstaðar. Löndun úr skipinu hófst um klukkan 10 í gærkvöldi en þá lauk vinnslu á síld úr Barða NK.

Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki segir við heimasíðu Síldarvinnslunnar að veitt hafi verið outarlega á Héraðsflóanum við Glettinganestotuna.

„Það er allvíða hægt að hitta á síld á þessum slóðum. Skip hafa einnig verið að fá góðan afla í Bakkaflóadýpinu. Það er allvíða hægt að hitta á síld hér eystra. Veiðarnar í þessum túr gengu vel enda sunnan gola og blíða allan túrinn. Þetta gekk smurt og þægilega. Það er dálítið af íslenskri sumargotssíld í aflanum eða 15-25% í hverju holi. Síldin sem fæst er virkilega falleg og það er draumastaða að geta stundað þessar veiðar 40 – 60 mílur að heiman. Hér er í reynd um lúxusveiðar að ræða. Síldin hefur veiðst þarna um þetta leyti árs á hverju ári síðasta áratuginn og það má sko þakka fyrir það. Það er bjart framundan hvað þessar veiðar varðar,” segir Hálfdan.

Síldveiðunum hjá Síldarvinnsluskipunum er stýrt út frá afkastagetu fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar, sem vinnur síldina. Beitir NK hélt til veiða í gær og er honum ætlað að ná í afla sem dugar fiskiðjuverinu fram að helgi.