Undanfarna daga hefur farið að bera á göngum hnúðlaxa upp í ár hér á landi að sögn Hafrannsóknastofnunar. Þeir hafa bæði veiðst og komið fram í myndavélum í fiskteljurum með myndavélum.

„Hnúðlaxar hafa veiðst í ám í öllum landshlutum, en flestir í ám á Austurlandi. Búist er við allnokkrum göngum hnúðlaxa í ár í sumar,“ í tilkynningu á vef Hafrannsóknastofnunar.

„Fiskistofa hefur heimilað veiðifélögum að stemma stigu við fjölgun hnúðlaxa með netaveiði og fyrirdrætti í ám og er mikilvægt að farið sé með gát við veiðarnar til að hafa sem minnst áhrif á lífríki á botni þ.m.t, á seiði. Mikilvægt er að veiði hnúðlaxa sé samviskusamlega skráð í veiðibækur til að fylgjast megi með útbreiðslu og fjölda veiddra fiska. Ekki eru enn ljós möguleg áhrif af aukinni gengd og hrygning hnúðlaxa, í ár hér á landi, á þá stofna laxfiska sem fyrir eru; lax, urriða og bleikju,“ segir í tilkynningunni.

Samstarf við nágrannalöndin

„Hafrannsóknastofnun óskar eftir því fá veidda fiska til rannsókna. Rannsóknirnar munu beinast að lífssögu hnúðlaxa og má þar nefna göngutíma í ár, vöxt þeirra í sjó og fæðuvali, sem hægt er að greina með mælingum á efnum í kvörnum. Einnig verður kannað hvaða sníkjudýr og sjúkdóma hnúðlaxar geti borið. Greining á erfðaefni þeirra getur gefið upplýsingar um skyldleika stofna og hvort einstakir fiskar snúi aftur í þá á þar sem þeir klöktust út. Samanburður á milli áa og landsvæða getur einnig gefið mikilsverðar upplýsingar. Rannsóknirnar verða unnar af vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar í samvinnu við sérfræðinga í nágrannalöndum. Sýni af veiddum hnúðlöxum munu einnig nýtast framhaldsnemum við Háskóla Íslands til rannsókna,“ segir í tilkynningunni.

„Þau sem luma á hnúðlaxi sem þarf að koma undir hendur vísindafólks er bent á að hafa samband við Hauk Georgsson í netfanginu: [email protected] eða í síma 899 0279,“ segir áfram.

Stuttur lífsferill hnúðlaxa

Í tilkynningunni segir einnig að lífsferill hnúðlaxa sé stuttur miðað við það sem þekkist hjá ferskvatnfiskum hér á landi.

„Aðeins eru tvö ár frá frjóvguðu hrogni þar til það verður að fullorðnum kynþroska einstaklingi. Göngur kynþroska fiska úr sjó byrja síðast í júní og þeir hrygna í ágúst og allir hnúðlaxar drepast að lokinni hrygningu. Hrogn þeirra klekjast út að vori, seiðin ganga strax til sjávar og þar dvelur fiskurinn í eitt ár og tekur út mest af sínum vexti. Þessi stutti og afmarkaði lífsferill leiðir til þess að um er að ræða tvo aðskilda stofna í tíma, þ.e. stofna sem hrygna þau ár sem eru oddatala og þá sem hrygna þegar ár eru slétt tala. Göngur hnúðlaxa í ár hér á landi hafa að mestu einskorðast við oddatöluár enn sem komið er,“ er útskýrt í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.