Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gaf í gær út auglýsingar um stöðvun strandveiða frá og með deginum í dag, 13. júlí, á svæði A frá Eyja og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps og svæði D frá Hornafirði til Borgarbyggðar. Forsendan fyrir stöðvuninni er sú að kvótinn fyrir júlímánuð sé uppurinn á þessum svæðum samkvæmt áætlun Fiskistofu.

Landssamband smábátaeigenda telur veiðistöðvunina hins vegar ótímabæra.

Á vef LS segir:

,,Þegar skoðaðar eru aflatölur kemur í ljós að eftir er að veiða  74 tonn á svæði A og 58 tonn á D svæði.  Óánægju gætir með þetta bráðlæti Fiskistofu hjá strandveiðimönnum á þessum svæðum, sérstaklega á það við svæði D þar sem ördeyða hefur verið á miðunum síðustu daga.”