Nú í byrjun mánaðarins sagði breska stjórnin formlega upp fiskveiðisamningi við tólf Evrópuríki sem undirritaður var árið 1964, nokkrum árum áður en Bretland gekk í Evrópusambandið.
Með uppsögn þessa samnings vilja bresk stjórnvöld tryggja að aðildarríki samningsins geti ekki notfært sér hann til að gera tilkall til fiskveiðiréttinda í breskri landhelgi eftir að Bretland yfirgefur Evrópusambandið.
Þessi hálfrar aldar gamli samningur gekk í gildi árið 1966, tveimur árum eftir undirritun hans, en nokkrum árum áður en Bretland gekk í Efnahagsbandalag Evrópu, forvera Evrópusambandsins. Það gerðist ekki fyrr en árið 1973.
Byggður á veiðireynslu
Samningurinn tryggði aðildarríkjum hans heimild til fiskveiða á svæði innan tólf mílna landhelgi hvers annars, allt upp að sex mílna línunni, í samræmi við veiðireynslu hvers ríkis á áratuginum 1953 til 1962. Aðildarríkin, auk Bretlands, eru Belgía, Danmörk, Frakkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Pólland, Spánn, Svíþjóð og Þýskaland.
Innan Bretlands hafa útgöngusinnar haft áhyggjur af því þessi samningur myndi í raun tryggja aðildarríkjum hans áfram eins konar bakdyraaðgang að breskum fiskimiðum eftir að Bretland gengi úr Evrópusambandinu. Með því að segja upp samningnum sé þessari bakdyraleið lokað og þar með geti enginn vafi leikið á því að Bretar fái full yfirráð yfir eigin fiskimiðum.
„Þetta er sögulegt fyrsta skref í áttina að því að móta nýja fiskveiðistefnu innan Bretlands þegar við yfirgefum Evrópsambandið,“ sagði Michael Gove, umhverfisráðherra bresku stjórnarinnar, þegar hann skýrði frá uppsögn samningsins í byrjun síðustu viku. „Það þýðir að í fyrsta sinn í meira en 50 ár getum við ákveðið hverjir hafi aðgang að hafinu okkar.“
Breytir engu
Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins gagnvart Bretlandi, sagði hins vegar að ákvörun bresku stjórnarinnar breyti nákvæmlega ekki neinu. ESB-löggjöfin og hin sameiginlega sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins hafi í reynd tekið þennan samning yfir.
Sameiginlega sjávarútvegsstefnan heimilar öllum ESB-löndum að veiða innan landhelgi hvers annar allt upp að tólf mílum. Lundúnasamningurinn heimilaði hins vegar aðildarríkjunum að veiða á beltinu milli sex og tólf mílna, en sú heimild var sem fyrr segir byggð á veiðireynslu ríkjanna áratuginn áður en samningurinn tók gildi.