Leit norskra skipa að loðnu í Barentshafi lýkur í dag án þess að loðnan hafi fundist í veiðanlegu magni, að því er fram kemur á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins. Á sama tíma er fjöldi norskra loðnuskipa að veiðum í íslensku lögsögunni.

Leitin af loðnu í Barentshafi hefur staðið yfir frá 19. janúar og voru Norðmenn með tvö skip við leitina. Á vef ráðuneytisins kemur fram að loðnuskipum sé heimilt að halda leitinni áfram fyrir eigin reikning austan við 30°A.

Norski loðnuflotinn er nú kominn til loðnuveiða A- og SA af Íslandi eins og fram kom hér á vef Fiskifrétta fyrr í dag til að veiða þau 28 þúsund tonn sem norskum skipum var úthlutað hér.