Eiríkur Sigurðsson hefur verið skipstjóri í 40 ár og stýrir nú Viking Reval, frystitogara sem Reyktal útgerðin gerir út. Eiríki er fleira til lista lagt en að veiða fisk og á það til að skrifa smellnar blaðagreinar sem þó eru ekki lausar við ádrepu. Margir minnast lýsingar hans á atganginum í Smugunni þegar hann stýrði þar Hágangi II og lenti ítrekað í fremur óvinveittum samskiptum við norsku strandgæsluna. Hann er umhverfisverndarmaður, hefur veitt á norðlægari slóðum en flestir aðrir og vill stuðla að minni orkunotkun og umhverfisraski í veiðum með nýjum og nýstárlegum veiðiaðferðum. Langt viðtal er í sjómannadagsblaði Fiskifrétta sem kom út sl. miðvikudag. Í dag og næstu daga verður viðtalið birt í nokkrum köflum í netútgáfu Fiskifrétta.

Fyrst á sjó tíu ára

Eiríkur er fæddur á Húsavík 1961, ólst þar upp og spilaði fótbolta með Völsungi. Hann var kominn fast að þrítugu þegar hann fluttist suður og hefur alla sína tíð verið viðloðandi sjávarútveginn. Fyrst fór hann á sjó tíu ára gamall og þrettán ára var hann orðinn fullgildur háseti á nótaskipinu Gísla Árna RE 375 sem þá var eitt frægasta aflaskip Íslendinga, gert út af Sjóla hf. Það þótti talsvert afrek að vera kominn þar í fullgilt pláss svo ungur að árum.

Gísli Árni RE 375. Eiríkur varð fullgildur háseti á honum 13 ára.
Gísli Árni RE 375. Eiríkur varð fullgildur háseti á honum 13 ára.

„Mest vorum við á loðnuveiðum og skipstjórar voru Eggert Gíslason, Sigurður Sigurðsson og seinna Magnús Þorvaldsson. Þessi skip höfðu mest verið í Norðursjónum á síldveiðum og fóru svo á loðnuvertíðar hérna heima. Svo þróaðist þetta út í loðnuveiðar á sumrin líka, mikið við Jan Mayen,“ segir Eiríkur.

Loðna við Jan Mayen

Loðnuveiðar við Jan Mayen voru þrælavinna. Við Ísland var hægt að kasta tvisvar til þrisvar á loðnuvertíðinni og fylla skipin en norður frá á sumrin voru torfurnar litlar og þegar kastað var gáfu þær kannski tíu til tuttugu tonn þegar vel gekk. Það þurfti því að kasta allt upp í 40 sinnum til að fylla skipin. Skipin báru heldur ekki mikið miðað við það sem er í dag. Gísli Árni RE bar til dæmis ekki nema um 600 tonn en stærstu uppsjávarskipin á Íslandi í dag taka um 3.000 tonn. Þetta var eiginlega eldskírn Eiríks í sjómennsku og var hann á Gísla Árna þar til hann varð 17 ára gamall. Þá hóf hann nám í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum. Þar bjó hann í þrjú ár þótt skólinn hafi ekki verið nema tvo vetur. Fyrsta árið var hann nefnilega á Gísla Árna á spærlingsveiðum.

„Það munaði engu að ég skyti rótum í Vestmannaeyjum eins og margir gerðu sem voru í Stýrimannaskólanum þar. Flestir náðu sér í stelpu þar og urðu eftir en ekki ég.“

Eiríkur er náttúrubarn. Hann fer flestra sinna ferða á reiðhjóli og nýtir frítíma sinn til að veiða í soðið úti á Faxaflóa, fara í fjallgöngur og á skíði, og horfa á dæturnar spila fótbolta. Á árunum í Vestmannaeyjum réri hann kajak í kringum Heimaey og úteyjarnar og komst inn í töfraveröld hellanna sem þar eru. Hann segir Vestmannaeyjar perlu í náttúru Íslands.

Sjéníver

Skömmu eftir útskrift í Eyjum réði Eiríkur sig sem skipstjóra á Skálaberg ÞH sem gekk líka undir nafninu Sjéníver. Það hafði orðið frægt fyrir það, löngu áður en Eiríkur tók við því sem skipstjóri, að hafa farið í siglingu til Bretlands og reyndi áhöfnin þegar heim var komið að smygla nokkrum tonnum af áfenginu sjéníver. Nafnið festist við bátinn. Í framhaldi tók Eiríkur við Feng RE 235 sem hafði verið framlag Íslands til þróunaraðstoðar við Grænhöfðaeyjar og var þar nýtt til leitar að fiskimiðum við eyjarnar. Leiðin lá svo á stöðugt stærri skip, mest á trolli en líka á nót. Mest var hann við uppsjávarveiðar á Erni KE 13 frá Keflavík en eftir að þeim tíma lauk hefur Eiríkur eingöngu verið á trollveiðum á fiskiskipum og mest á frystiskipum.

„Það geta verið löng úthöld og sérstaklega í seinni tíð, allt upp í nokkra mánuði, að maður tali nú ekki um Covid-tímann. Þá var ég með sama skip sem heitir Reval Viking og er gert út frá Eistlandi af Reyktal AS útgerðinni.“

Fræg urðu samskipti Eiríks og áhafnar hans á Hágangi II og norsku strandgæslunnar þegar Smugudeilan stóð sem hæst.
Fræg urðu samskipti Eiríks og áhafnar hans á Hágangi II og norsku strandgæslunnar þegar Smugudeilan stóð sem hæst.

Eiríkur segir gaman að vinna fyrir Reyktal útgerðina því þar sé mikið pælt í nýjungum hvað varðar veiðar, útgerð skipa og umhverfisvernd. Í næsta skammti verður einmitt fjallað um þessa hluti og tilraunir til veiða með ljósvörpu.