Á stuttum tíma hafa norsk loðnuskip veitt yfir 9.000 tonn í grænlenskri lögsögu. Veiðarnar fara fram austan við Knud Rasmussens land á Grænlandi, en það er í norðvestri frá Íslandi.
Á vef norskra útvegsmanna segir að ellefu skip hafi tilkynnt um afla til þessa, frá 700 og yfir 1.000 tonn hvert. Önnur hafa fengið afla án þess að ná fullfermi.
Rúmlega 20 skip byrjuðu loðnuleit í síðustu viku og nú hafa alls 27 skip haldið til sumarloðnuveiða frá Noregi.
Norska síldarsölusamlagið upplýsir að fyrsti aflinn hafi verið sleginn á 1,65 norskar krónur kílóið eða jafnvirði rösklega 30 íslenskra króna. Á næsta uppboði sem fram fer seinna í dag munu danskar fiskimjölsverksmiðjur einnig bjóða í loðnu frá norsku skipunum.