Loðnuveiðarnar eru nú loksins komnar í gang að einhverju marki. Skip hafa síðasta sólarhringinn veitt úr ágætistorfu úti af Skarðsfjöru og verið fljót að fá þá skammta sem hæfa vinnslunni í landi hverju sinni en það eru 500-700 tonn, að því er Gísli Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK tjáði Fiskifréttum nú um klukkan 14 í dag.

„Börkur er að landa í Neskaupstað, Birtingur var að ljúka veiðum og heldur áleiðis til Norðfjarðar, þá eru Faxi og Ingunn á leið til Vopnafjarðar og Álsey er sömuleiðis að klára. Við látum bara reka hérna á miðunum og bíðum eftir að geta hafið veiðar á morgun því Síldarvinnslan getur ekki tekið við meiri afla í bili til vinnslu,“ sagði Gísli.

Loðnan sem veiðist úti af Skarðsfjöru er stór og góð, um 40 stykki í kílóinu, og hrognafylling um 16%. Að sögn Gísla hefur einnig frést af loðnu úti af Hornafirði.

Fjölmörg norsk loðnuskip eru nú stödd úti fyrir sunnanverðum Austfjörðum en hafa ekki fengið neitt. Samkvæmt loðnusamningnum mega þau ekki fara suður fyrir ákveðna línu á þeim slóðum og geta því ekki blandað sér í slaginn fyrir sunnan land.