Loðnuveiðar norskra skipa í Barentshafi fara hægt af stað. Aðeins eitt skip, Leinebjørn, hefur verið þar á veiðum og tilkynnt um 500 tonna afla sem fékkst í þremur köstum. Lítið fannst af loðnu í fyrstu en í gær glæddist veiðin, að því er fram kemur á vef Noreges sildesalgslag.

Í Fiskeribladet/Fiskaren er rætt við skipstjórann á Leinebjørn. Hann segist hafa veitt loðnuna í norsku lögsögunni um 100 mílur frá landi. Þetta sé góð loðna, um 41 til 42 stykki í kílóinu og hún sé að mestu átulaus.

Frysting hófst á loðnu í landi í Noregi fyrir nokkru en þar er um að ræða Íslandsloðnu sem flokkast 47 stykki í kílóinu. Landvinnslan vill þó heldur fá loðnuna úr Barentshafi sem er stærri.

Mikill hluti norska loðnuflotans hefur verið að veiðum á loðnu við Íslands en veiðum norskra skipa lýkur hér 15. febrúar.  Norsku skipin hafa tilkynnt um 25 þúsund tonna afla í íslensku lögsögunni en þau mega veiða hér 49 þúsund tonn.